Árni var staddur úti í Bandaríkjunum meðan kosningarnar stóðu yfir, hann var á kvikmyndahátíð í L.A. þegar Vísir falaðist eftir stuttu viðtali við hann í gær. En, hann hefur fagnað sigri Trumps með nokkrum færslum og myndum á Facebooksíðu sinni.

Árni bætir við: „Vísir.is hver hjá ykkur gengur með veggjum núna“ og er óvíst hvað hann meinar nákvæmlega með þeim orðum en hann er væntanlega að vísa til umfjöllunar Vísis í gær þess efnis að vandkvæðum sé bundið að finna yfirlýsta stuðningsmenn Trumps á Íslandi.
„Og mbl.is hefði nú ekki verið betra að vera hlutlausir í ykkar fréttaflutningi,“ er jafnframt spurning sem Árni slær fram á Facebookvegg sínum, sigri hrósandi.
Guð hjálpi okkur
En, þeir eru ekki margir sem eru á línu Árna þó þá megi finna ef að er gáð. En, sé skautað yfir Facebook ríkir þar heilt yfir verulegt uppnám vegna sigurs Donalds Trumps með fáeinum undantekningum.
Fólki upp til hópa virðist illa brugðið. Hér eru fáein dæmi af fullkomnu handahófi, en þetta má heita til marks um tóninn í mannskapnum almennt:

Tobbu er ekki skemmt en sumir reyna að krafla sig í gegnum vonbrigðin með háðskum húmor.
Þannig segir Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir leikkona: „Er ekki við hæfi að fá sér vodka í morgunmat? Og já, taka aftur upp reykingar.“
Og Felix Bergsson fjölmiðlamaður segir: „Hvað næst? Bobby Ewing kemur úr sturtunni?“
Páll Valsson útgefandi er með böggum hildar: „Frekar fáfróðan rudda og lýðskrumara en hæfustu konuna ...“ og þannig má lengi áfram telja.
Lilja Sigurlína Pálmadóttir athafnakona talar á einkennandi nótum þegar hún segir: „Guð hjálpi okkur“.