Uppskeran hjá Íþróttamanni ársins, Eygló Ósk Gústafsdóttur, á HM í 25 metra laug í Windsor í Kanada í dag var afar glæsileg.
Eygló Ósk Gústafsdóttir setti sjálf Íslandsmet í 50 metra baksundi í fyrsta spretti í 4 x 50 metra boðssundi kvenna en hún hjálpaði einnig tveimur boðssundsveitum að setja landsmet.
Eygló Ósk byrjaði á því að setja landsmet með kvennasveitinni í 4x50 metra fjórsundi en hún var ekki hætt. Seinna um daginn synti hún einnig með blönduðu íslensku sveitinni.
Boðsundssveitin í blönduðum flokki varð í sjöunda sæti í sínum riðli og í sextánda sæti í greininni af 31 sveitum í 4x50 metra skriðsundi. Átta efstu þjóðir í boðsundum komast í úrslitariðla.
Íslenska sveitin var skipuð þeim Aroni Erni Stefánssyni, Davíð Hildiberg Aðalsteinssyni, Eygló Ósk Gústafsdóttur og Jóhönnu Gerðu Gústafsdóttur. Þau syntu í öðrum riðli af 4.
Ekkert landsmet var skráð í greininni fyrir sundið þannig að tíminn þeirra 1:36,70 mínútur er sjálfkrafa nýtt met. Hins vegar er Íslandsmetið 1:38,63 sem sveit Reykjavíkur á sett á ÍM25 2014. Þá voru í sveitinni þau Alexander Jóhannesson, Eygló Ósk Gústafsdóttir, Kristinn Þórarinsson og Inga Elín Cryer.
Munurinn á Íslandsmeti og landsmeti er einfaldast að útskýra þannig að landsmet eru sett þegar saman kemur sundfólk í landsliðsverkefnum en Íslandsmet eru sett af sundfólki úr sama sundfélagi.
