Birna er fædd 1996, rauðhærð, 170 sentímetrar á hæð og um 70 kíló. Hún var klædd í svartar gallabuxur, gráa peysu, svartan flísjakka með hettu og svarta Dr. Martens skó þegar síðast sást til hennar. Það var þegar hún fór út af skemmtistaðnum Húrra um klukkan fimm á laugardagsmorgun.
Unnt var að rekja ferðir síma hennar í Flatahraun í Hafnarfirði en síðan hefur verið slökkt á honum. Í upphafi leitaði fólk því í Hafnarfirði en einnig var leitað í Öskjuhlíð og Heiðmörk.

Í stöðuuppfærslu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem birtist á tíunda tímanum í gærkvöldi, var ítrekað að enn væri lýst eftir Birnu. Málið væri í algerum forgangi og hefðu starfsmenn embættisins skoðað upptökur úr eftirlitsmyndavélum og símagögn nær sleitulaust í allan gærdag. Fundað var um málið í gærkvöldi til að ákveða næstu skref.
Faðir Birnu, Brjánn Guðjónsson, deildi myndbandinu að neðan í þeirri von að það gæti hjálpað til við leitina.
„Þetta er úr karakter að hverfa svona. Hún er alltaf „online“ og í samskiptum við vinkonur sínar. Það er yfirleitt ekkert mál að ná í hana ef maður þarf,“ segir Sigurlaug. Lögregla biður þá sem hafa upplýsingar um ferðir Birnu að hafa samband í síma 444-1000.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.