Aðspurður um hvort eitthvað benti til þess að játning væri á næsta leiti segir Grímur að ómögulegt væri að fara út í slíkt.
„Svona rannsókn er einfaldlega þannig að hún þróast áfram með því að yfirheyra og fara yfir gögn. Svo er viðkomandi borið undir þá sem eru grunaðir. Rétt er að hafa í huga að mennirnir eru grunaðir en geta hugsanlega komið með skýringar á því sem borið er undir þá.“
Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi, hefur staðfest við fjölmiðla að ekki sé útilokað að mennirnir hafi haft samskipti við Birnu. Getur þú upplýst um hvort um samskipti í persónu eða í gegnum samfélagsmiðla sé að ræða?
„Í yfirheyrslunum kemur fram að það hafa einhver samskipti hugsanlega átt sér stað án þess að það sé hægt að fara nánar út í það. Það er svolítið erfitt að setja á það einhvern merkimiða ef svo má segja. En það má segja að þeir útiloki ekki samskipti,“ segir Grímur.
Nú er það staðfest að lífsýni sem fannst í Kia Rio bifreið sem mennirnir höfðu til umráða hafi meðal annars verið blóð. Þeir hafa væntanlega verið inntir eftir útskýringum á því, eða hvað?
„Að sjálfsögðu. Það er meðal annars það sem við erum að fara yfir.“ Grímur segist hins vegar ekki geta svarað því hvað kom út úr því.
„Við erum bara að vinna þetta, stundum tekur svolítinn tíma að fá skýringar.“
Óyggjandi gögn um vitneskju og jafnvel aðkomu að hvarfi Birnu
Lífsýni sem grunur leikur á að sé úr Birnu hefur verið sent til Svíþjóðar til greiningar. Að sögn Gríms er rannsóknin í algjörum forgangi þar. Greiningin gæti þó tekið nokkra daga.
Aðspurður um hvort hann telji að þörf sé á framlengingu gæsluvarðhalds sakborninganna vegna þess drjúga tíma sem greining á sýninu kann að taka segir Grímur að svo þurfi ekki endilega að vera.
Hinir grunuðu voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í héraðsdómi í gær en lögreglan fór fram á fjórar vikur.
„Það sem vakti fyrir okkur í embættinu þegar farið var fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald. var einfaldlega að við erum með gögn sem við teljum nokkuð óyggjandi um vitneskju mannanna og jafnvel aðkomu þeirra að hvarfi Birnu. Þess vegna töldum við okkur þurfa þennan tíma.“
Hann segir að það sé ýmislegt sem geri það að verkum að þeir vilji svo langan tíma, meðal annars það að geta unnið úr gögnum og fengið greiningar á gögnum erlendis frá.
„Það setur á okkur meiri pressu og við vinnum hraðar fyrir vikið. Ef við teljum okkur þurfa áframhaldandi gæsluvarðhald eftir að þetta tveggja vikna gæsluvarðhald rennur út, þá förum við fram á það við dómstóla.“ Grímur segir að þá myndi dómstóllinn meta málið upp á nýtt að fengnum þeim gögnum sem bæst hafa í málið.
Lögreglan kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar en niðurstaða hans í málinu liggur ekki enn fyrir.
„Það breytir ekki okkar framgöngu en við pössum að vinna þetta hraðar.“
Hér fyrir neðan má sjá frétt úr kvöldfréttum Stöðvar 2 um leitina að Birnu.