Breski stórleikarinn Michael Caine kaus með Brexit í atkvæðagreiðslunni sem fram fór í júní í fyrra, eins og meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði, og ákváðu þar með að Bretland mun ganga úr Evrópusambandinu.
Í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina segist Caine hafa kosið með Brexit út af frelsi en ekki út af því að hann sé rasisti eða hafi áhyggjur af innflytjendamálum.
„Ég kaus með Brexit... [...] Það var ekki út af rasisma, innflytjendum eða einhverju slíku heldur snerist þetta um frelsi,“ sagði Caine en hann var í viðtali vegna kynningar á nýjustu mynd sinni Going in Style.
„Stjórnmál eru óreiðukennd og í þeim muntu alltaf fara inn á svæði sem þú hefur ekki farið inn á áður. Þannig að þú villist og síðan finnurðu réttu leiðina og það verður allt í lagi,“ sagði Caine.
Caine hefur áður viðrað efasemdir sínar um Evrópusambandið, meðal annars í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar um Brexit.
Michael Caine kaus með Brexit
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
