Lífið

Þetta höfðu erlendir blaðamenn að segja um dómaraflutning Svölu

Birgir Olgeirsson skrifar
Svala á sviði í Kænugarði.
Svala á sviði í Kænugarði. Eurovision
Blaðamenn fylgdust með dómarennsli fyrri undanriðils söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, í Kænugarði í Úkraínu í kvöld þar sem Svala Björgvinsdóttir steig á svið fyrir hönd Íslands.

Á dómararennslinu fylgjast dómnefndir hverra landa með flutningi keppenda en stig þeirra gilda til helmings á móti símaatkvæðum áhorfenda. Það var því flutningurinn í kvöld sem ræður því hvaða lönd fá stig frá dómnefndum hverrar þjóðar.

Matthew Friedrichs, sem skrifar fyrir vefinn ESC United, sagði atriði Svölu vera dómaravænt. „En það er þó frekar bragðdauft og óspennandi,“ skrifaði Friedrichs um atriði Svölu. Hann sagði flutning hennar fremur staðnaðan fyrir þetta lag en hún flytji það þó eins vel og hún getur og sé örugg á sviði.

Samuel Deakin ritar fyrir Eurovoix en hann sagði flutning Svölu vera hnitmiðaðan og að umgjörðin á sviði hentaði flutningi hennar fullkomlega. „Það voru engin mistök á þessu dómararennsli,“ skrifar Deakin.

Bretinn Jessica Weaver ritar fyrir Eurovision-vefinn ESC Today en þar segir hún Svölu hafa flutt lagið einstaklega vel á dómarennslinu. Var það mat Weaver að flutningur Svölu gæti hafa lagst vel í dómnefndirnar og að það gæti mögulega gert góða hluti með stuðningi í formi atkvæða frá áhorfendum á morgun.“

Blaðamaður sænska dagblaðsins Aftonbladet, Tobbe Ek, segir lagið Paper ekki eina af öskurballöðum keppninnar, það sé of gott til þess. Hann segir Svölu skorta hlýju á sviði en að hún skarti þykkustu skósólum keppninnar.

Sjá einnig: Blaðamaður Aftonbladet segir Svölu líkari vondu stjúpunni en Mjallhvíti

Finnski söngvarinn og Eurovision-sérfræðingurinn Thomas Lundin birti í dag á bloggsíðu sinni sína stigagjöf yfir öll lögin sem eru í Eurovision í ár.

Thomas vakti mikla athygli í þáttum sænska ríkissjónvarpsins (SVT) fyrir nokkrum árum þar sem fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum komu saman til að hlusta á og ræða framlögin í söngvakeppninni. Eiríkur Hauksson var fulltrúi Íslendinga í þáttunum.

Thomas segir á síðu sinni að hann myndi gefa Svölu fimm stig í keppninni, ef hann fengi einhverju ráðið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.