„Sýningin er þemaskipt, þannig að ef þú hefur bara áhuga á að skoða garðtengda hluti sem dæmi þá getur þú gert það. En auðvitað skoðar maður allt þegar maður er kominn,“ segir hún og hlær.
„Sýningin er fyrir alla sem hafa áhuga á einhverju sem tengist heimili, hönnun og framkvæmdum en líka fyrir heilu fjölskyldurnar.“
Þórunn Antonía og Friðrik Dór láta draum rætastSesselja er afar spennt fyrir helginni og að sjá sýninguna smella saman. Hún er þó einna spenntust fyrir að afhjúpa hluta sýningarinnar sem heitir Draumaherbergið. „Ég er spenntust fyrir hönnunarhluta sýningarinnar og svo Draumaherberginu.“
„Draumaherbergið er náttúrulega bara aðalmálið fyrir mér. Upphaflega hugmyndin mín var að fá tvo þjóðþekkta Íslendinga, sem væru líka smekksfólk, til að hanna draumaherbergið sitt. Þannig ég bað Þórunni Antoníu Magnúsdóttur og Friðrik Dór Jónsson um að taka þátt, og þau voru bara meira en til í það. Mér fannst mjög gaman að etja saman tveimur týpum sem eru frekar ólíkar.“„Þau eru að hanna draumaherbergi, þetta er mjög útópískt,“ segir Sesselja og leggur áherslu á orðið „drauma“. Herbergið þarf sem sagt ekki að vera praktískt. „Útkoman byggir á draumórum þeirra, annað hvort í fortíð eða framtíð. Það er búið að vera mjög skemmtilegt að fylgjast með þeim og ég held að það leynist góður innanhússhönnuður inn í þeim báðum,“ segir hún og hlær.
Þess má geta að Þórunn og Friðrik hafa unnið herbergið í samstarfi við við Byko, Snúruna og Ilvu. „Þessi fyrirtæki hafa lánað okkur hluti, styrkt okkur að hluta og þannig látið drauminn verða að veruleika.“
Búist við um 30.000 gestumSesselja finnur fyrir miklum áhuga frá fólki á sýningunni. „Það er búist við um 30.000 manns á sýninguna sem er í raun fyrir alla. Það verður heilmikið gert fyrir krakka, þarna verður t.d. útisvæði og skemmtiatriði á stóru sviði á klukkutíma fresti. Þannig að allir ættu að gera skemmt sér vel,“ segir Sesselja sem hvetur alla sem vilja gera sér glaðan dag að leggja leið sína í Laugardalshöll um helgina.