Leikkonan lýsti reynslu sinni af kynjamisrétti í Hollywood í spjalli hennar og Maisey Williams, sem leikur Aryu Stark í GoT, við tímaritið The Edit. Þar segir hún meðal annars:
„Þegar ég var á þrítugsaldri og fór í margar áheyrnarprufur í Bandaríkjunum sagði einn ráðningarstjórinn við mig: „Karlarnir fara með upptökurnar heim til sín, horfa á þær og spyrja sig, „hverri þeirra myndirðu sofa hjá?“ segir Headey og bætir við:
„Ég hef aldrei leikið þann leik að mæta í áheyrnarprufur og daðra. Ég hef aldrei gert það.“
Hún kveðst vera hamingjusamari í dag og segir kröfurnar til hennar vera allt aðrar nú þegar hún er kominn á fimmtugsaldur. „Það eru ekki gerðar útlitskröfur til kvennanna sem ég leik í dag. Sú pressa er farin af mér. Karlkynsleikarar geta leyft sér að vera „áhugaverðir“ en það er gerð rík krafa til kvenna um að vera fallegar og grannar.“
Tekur í sama streng og Björk
Hún telur að konur standi frammi fyrir miklum hindrunum þegar kemur að því að öðlast virðinguna sem þær eiga skilið í skemmtanabransanum.
„Ég ræddi þetta við aðra leikkonu um daginn. Hún sagði: „Upplifirðu það líka að þurfa að segja sjö sinnum það sem karlmenn þurfa bara að segja einu sinni?“
Þessi reynsla helst í hendur við fræg ummæli Bjarkar Guðmundsdóttir, sem hún lét meðal annars falla í viðtali við Pitchfork. „Allt það sem karl segir einu sinni þurfa konur að segja fimm sinnum.“