Á bak við Akkúrat Stúdíó ehf. standa Sigrún Guðný Markúsdóttir og Döðlur en Sigrún hefur áralanga reynslu af verslunar- og fyrirtækjarekstri í hönnunargeiranum og teymið hjá Döðlum hefur náð langt á sviði hönnunar á skömmum tíma. Fyrirtækið sá til að mynda um hönnun ODDSSON ho(s)tel.
Sigrún segir sig, Daníel og Hörð hjá Döðlum skipa skothelt teymi. „Þegar Hönnunarmiðstöð Íslands auglýsti plássið þá var ég með ákveðna hugmynd í kollinum. Mig langaði að sækja um að opna verslun með íslenskri og norrænni hönnun í rýminu og vissi að ég vildi fá Döðlur með mér í lið. Við Danni þekkjumst frá því í gamla daga en við vorum að vinna saman í Gallerí Sautján og erum í dag góðir vinir,“ segir Sigrún.

„Við erum afar stolt og þakklát fyrir að Akkúrat-hugmyndin okkar var valin úr mörgum flottum umsóknum. Þannig að við erum mjög einbeitt í því að gera vel og vera flottur gluggi fyrir rjómann af íslenskri hönnun,“ útskýrir Sigrún.
Í verslun Akkúrat er að finna fjölbreytta hönnun þar sem íslensk sköpun er í aðalhlutverki.
„Það er mjög vandlega valið inn í búðina, öll litaþemu og hvernig allt passar saman er úthugsað og hefur tekið marga mánuði í undirbúningi. Ég myndi segja að við séum með um það bil 70% íslenska hönnun. Svo er restin frá öðrum norrænum þjóðum.“Sigrún er himinlifandi yfir útkomunni nú þegar öll vinnan hefur skilað sér. „Við erum ofboðslega ánægð. Það er gaman að sjá allt smella svona vel saman því við erum búin að vera að vinna að þessu hörðum höndum í marga mánuði.“
Allt til sölu nema starfsfólkið
Spurð út í stílinn sem einkennir rýmið segir Sigrún: „Þetta er bara akkúrat stíllinn okkar. Við vorum samstíga og leyfðum þessu að þróast. Í fyrstu var ætlunin að hafa meiri liti í innréttingunum en það þróaðist svo út í það að hafa þetta bara ofboðslega „clean“ og hlutlaust. Réttu litirnir voru fundnir og okkur þykir þeir tóna einstaklega vel saman,“ segir Sigrún um litavalið en það samanstendur af fölgrábleikum, grábláum og dröppuðum lit meðal annars.„Teppið á gólfinu bindur svo rýmið saman og perurnar í loftinu setja einstaklega skemmtilegan svip á búðina, en þær voru pantaðar að utan.“

Aðspurð hvort það sé eitthvað sem hún er sérstaklega ánægð með í tengslum við Akkúrat kveðst Sigrún vera ánægð með allt Akkúrat „conceptið“ í heild.
„Ég er bara ofboðslega ánægð með þróunina á „brandinu“, með nafnið og lógóið okkar sem dæmi, það finnst mér einstaklega flott og vel úthugsað, en það hannaði Höddi í Döðlum. Það er þessi þríhyrningur sem hægt er að leika sér með. Og formið myndar alla stafina í orðinu „akkúrat“.
Og nafnið á búðinni, Akkúrat, kemur þannig til að í fyrsta samtalinu okkar Danna sem við áttum um búðina þá töluðum við saman í síma. Og þá sagði ég víst svo oft „akkúrat“, og þá var nafnið sem sagt komið,“ útskýrir Sigrún og hlær.
Þess má geta að formleg opnun Akkúrat verður haldin í dag á milli klukkan 15:00 og 18:00. Hér fyrir neðan má fletta myndasafni með fleiri myndum úr versluninni.