Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lífsspor þar sem jafnframt er tekið fram að grunnbúðir K3 séu þær sömu og þegar farið er upp á K2.
Það var klukkan fjögur í nótt sem hópurinn komst á toppinn á fjallinu sem stundum er kallað K3 og er 8051 metra hátt. Vika er síðan John Snorri fór á toppinn á K2 og 80 dagar síðan hann kleif Lhotse fyrstur Íslendinga. Þar með hefur John Snorri farið á þrjú fjöll sem eru yfir 8000 metra hæð á 80 dögum.
Með þessu er John Snorri sagður í tilkynningunni hafa sett tvö met. Enginn annar í heiminum nema John Snorri og sherpinn Tsering hafa farið á topp K2 og toppinn á Broad Peak á sjö dögum. Enginn hefur heldur áður farið frá grunnbúðum upp á Broad Peak og aftur niður á tveimur dögum. „John Snorri er sannarlega toppmaður og líklega gerður úr stáli,“ segir framkvæmdastjóri styrktarfélagsins Lífs í tilkynningunni.

Löng ferð fyrir höndum
Þegar lagt verður af stað frá grunnbúðum hefst ganga á lengsta skriðjökli í heimi (Bolero) en gangan er um 63 km. löng. Þaðan er keyrt til Skardu þar sem flogið verður frá herflugvellinum í bænum, til Islamabad. Í tilkynninunni er ekki sagt öruggt að hægt verði að fljúga vegna mikilla rigninga (monsún) á svæðinu, og því gæti farið svo að hópurinn keyri frá Skardu til Islamabad.
Í Islamabad verður John Snorri í 2 til 3 daga áður en hann heldur til Íslands ásamt Kára G. Schram kvikmyndatökumanni sem hefur fylgt John Snorra eftir með myndavélina í nokkra mánuði. Miðað við þetta ferðalag koma þeir félagar til Íslands um miðjan ágúst.
Söfnun Lífs er í fullum gangi og verður næstu vikur. Söfnunin er sögð hafa tekið aftur kipp í gær þegar John Snorri hélt upp á Broad Peak.
Það er Kvennadeild Landspítalans sem mun njóta góðs af þeim peningum sem John Snorri er að safna fyrir Líf um þessar mundir. Hægt er að heita á John Snorra á www.lifsspor.is og 9081515