Aðalmeðferðinni í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Möller Olsen var í gær frestað og verður henni framhaldið þann 1. september næstkomandi.
Vísir sendi fyrirspurn á Héraðsdóm Reykjaness og spurðist fyrir um það hvers vegna aðalmeðferðinni lýkur þá en ekki í þessari viku.
Samkvæmt svari frá Kristni Halldórssyni, dómsformanni í málinu, er ástæðan meðal annars sú að Dr. Sebastian Kunz, réttarmeinafræðingurinn sem krufði líkið af Birnu Brjánsdóttur, átti þess ekki kost að gefa skýrslu fyrir dómi í þessari viku.
Í næstu viku eru síðan annir hjá dómurunum en þrír dómarar skipa dóminn þar sem þeir eru uppteknir í aðalmeðferðum annarra mála.
Báðir meðdómsmennirnir eru uppteknir í aðalmeðferðum á mánudag, dómsformaðurinn er upptekinn í aðalmeðferð á þriðjudag og síðan er annar meðdómsmannanna með aðalmeðferð bæði á miðvikudag og fimmtudag.
Thomas er ákærður fyrir að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana þann 14. janúar síðastliðinn. Hann neitar sök í málinu en aðalmeðferð málsins hófst á mánudag og var framhaldið í gær. Henni verður svo haldið áfram, eins og áður segir, þann 1. september næstkomandi.
Uppfært
Í myndatexta kom fram að Bogi Hjálmtýsson væri meðdómari. Hið réttar er að Jón Höskuldsson er meðdómari.
