Á byrjunarreit Hörður Ægisson skrifar 22. september 2017 06:00 Stjórnmálamenn starfa ekki í tómarúmi. Ákvarðanir sem þeir – og stjórnvöld – taka geta ráðið miklu um væntingar fjárfesta, fyrirtækja og almennings gagnvart framtíð hagkerfisins. Í síðustu viku var ein slík afdrifarík ákvörðun tekin, fullkomlega að óþörfu, með fyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf. Óþarfi er að fjölyrða um aðdraganda stjórnarslitanna. Björt framtíð, flokkur sem hefur mælst með um þriggja prósenta fylgi í könnunum, kaus að sprengja ríkisstjórnina og um leið valda ómældu tjóni og óvissuástandi á sem flestum sviðum samfélagsins næstu mánuði. Útskýringar um meinta leyndarhyggju og trúnaðarbrest eru með svo miklum ólíkindum að það tekur nánast engu tali. Umboðsmaður Alþingis er sama sinnis og telur ekkert tilefni til að aðhafast í málinu. Stjórnarslitin eru hins vegar orðinn hlutur, fyrir tilstilli óðagots Bjartrar framtíðar, og framundan eru fjórðu kosningarnar til Alþingis á átta árum. Aðeins í Grikklandi hafa verið haldnar fleiri þingkosningar í Evrópu eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna. Pólitískur óstöðugleiki fer að verða viðvarandi ástand hérlendis. Slíkur stimpill mun til lengri tíma hafa neikvæð áhrif á lánshæfismat Íslands og erlenda fjárfestingu. Skammtímaáhrifin hafa hins vegar brotist út af fullum þunga á undanförnum dögum. Hlutabréfaverð hefur verið nánast í frjálsu falli, ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf snarhækkað og gengi krónunnar hefur gefið eftir. Ekkert af þessu þarf að koma á óvart. Pólitísk óvissa er eitur í beinum fjárfesta og fyrirtækja. Við bætast áhyggjur af því að komandi þingkosningar skili ekki skýrum pólitískum niðurstöðum, sem væri grundvöllur til myndunar traustrar ríkisstjórnar, heldur að við taki margra mánaða stjórnarkreppa. Við slíkar aðstæður munu stórar fjárfestingar sitja á hakanum og fjárfestar, innlendir sem og erlendir, gætu kosið með fótunum og flutt fé sitt úr landi. Fjármagnshöftin, sem voru afnumin nánast að fullu fyrr á árinu, höfðu áður verndað stjórnvöld fyrir slæmum ákvörðunum. Þær aðstæður eru hins vegar sem betur fer ekki lengur fyrir hendi. Ásamt því að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði þá voru stærstu verkefni fráfarandi ríkisstjórnar að endurskoða peningastefnuna og hefja löngu tímabært söluferli á hlutum ríkisins í viðskiptabönkunum. Þau mál hafa líkast til færst aftur á byrjunarreit. Verkefnisstjórn sem áformaði að skila tillögum undir lok árs um endurmat á forsendum peninga- og gjaldmiðlastefnu Íslands starfar núna án nokkurs pólitísks umboðs. Þá er ljóst að ekkert verður af fyrirhuguðu útboði og skráningu Arion banka á árinu en sú skráning hefði varðað veginn fyrir stjórnvöld við sölu á hinum bönkunum og markað fyrsta skrefið í því að koma á eðlilegu eignarhaldi á bankakerfinu. Fáir stjórnmálamenn hafa nokkurn skilning á mikilvægi þess að það gerist sem allra fyrst. Staðan er þessi. Þrátt fyrir mikinn efnahagsuppgang þá hefur Seðlabankinn engu að síður verið að lækka vexti enda hafa verðbólguvæntingar haldist undir markmiði bankans um langt skeið. Slíkar aðstæður í hagsögu Íslands eru fordæmalausar. Þetta kann núna að breytast. Frekari vaxtalækkanir á næstunni, eins og útlit var fyrir, virðast vera úr sögunni. Fjárfestar gera nú ráð fyrir mun meiri verðbólgu en áður og hættan er því frekar sú að Seðlabankinn sjái ástæðu til þess að breyta um kúrs og hækka vexti. Allt þetta og meira til er í boði Bjartrar framtíðar. Vonandi hafa kjósendur það í huga áður en þeir veita slíkum smáflokkum brautargengi í enn einum kosningunum – líklega þeim tilgangslausustu í lýðveldissögunni.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hörður Ægisson Mest lesið „Þetta er ekki hægt, en það verður samt að gera þetta“ Arnar Þór Jónsson Skoðun Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Hvað er borgaraleg pólitík? Guðjón Heiðar Pálsson Skoðun Mýtan um sæstreng! Andrés Pétursson Skoðun Jólaskreytingafyllerí: Eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í jólaskreytingum? Hildur Ýr Viðarsdóttir Skoðun Það er ekki nóg að vera klár stelpa/strákur/stálp Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Milljónerí Hannes Örn Blandon Skoðun Bíp Bíp Bíp Ágúst Mogensen Skoðun Kvennaárið 2025 Drífa Snædal Skoðun Kosningum lokið og hvað nú? Ólafur Ágúst Hraundal Skoðun
Stjórnmálamenn starfa ekki í tómarúmi. Ákvarðanir sem þeir – og stjórnvöld – taka geta ráðið miklu um væntingar fjárfesta, fyrirtækja og almennings gagnvart framtíð hagkerfisins. Í síðustu viku var ein slík afdrifarík ákvörðun tekin, fullkomlega að óþörfu, með fyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf. Óþarfi er að fjölyrða um aðdraganda stjórnarslitanna. Björt framtíð, flokkur sem hefur mælst með um þriggja prósenta fylgi í könnunum, kaus að sprengja ríkisstjórnina og um leið valda ómældu tjóni og óvissuástandi á sem flestum sviðum samfélagsins næstu mánuði. Útskýringar um meinta leyndarhyggju og trúnaðarbrest eru með svo miklum ólíkindum að það tekur nánast engu tali. Umboðsmaður Alþingis er sama sinnis og telur ekkert tilefni til að aðhafast í málinu. Stjórnarslitin eru hins vegar orðinn hlutur, fyrir tilstilli óðagots Bjartrar framtíðar, og framundan eru fjórðu kosningarnar til Alþingis á átta árum. Aðeins í Grikklandi hafa verið haldnar fleiri þingkosningar í Evrópu eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna. Pólitískur óstöðugleiki fer að verða viðvarandi ástand hérlendis. Slíkur stimpill mun til lengri tíma hafa neikvæð áhrif á lánshæfismat Íslands og erlenda fjárfestingu. Skammtímaáhrifin hafa hins vegar brotist út af fullum þunga á undanförnum dögum. Hlutabréfaverð hefur verið nánast í frjálsu falli, ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf snarhækkað og gengi krónunnar hefur gefið eftir. Ekkert af þessu þarf að koma á óvart. Pólitísk óvissa er eitur í beinum fjárfesta og fyrirtækja. Við bætast áhyggjur af því að komandi þingkosningar skili ekki skýrum pólitískum niðurstöðum, sem væri grundvöllur til myndunar traustrar ríkisstjórnar, heldur að við taki margra mánaða stjórnarkreppa. Við slíkar aðstæður munu stórar fjárfestingar sitja á hakanum og fjárfestar, innlendir sem og erlendir, gætu kosið með fótunum og flutt fé sitt úr landi. Fjármagnshöftin, sem voru afnumin nánast að fullu fyrr á árinu, höfðu áður verndað stjórnvöld fyrir slæmum ákvörðunum. Þær aðstæður eru hins vegar sem betur fer ekki lengur fyrir hendi. Ásamt því að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði þá voru stærstu verkefni fráfarandi ríkisstjórnar að endurskoða peningastefnuna og hefja löngu tímabært söluferli á hlutum ríkisins í viðskiptabönkunum. Þau mál hafa líkast til færst aftur á byrjunarreit. Verkefnisstjórn sem áformaði að skila tillögum undir lok árs um endurmat á forsendum peninga- og gjaldmiðlastefnu Íslands starfar núna án nokkurs pólitísks umboðs. Þá er ljóst að ekkert verður af fyrirhuguðu útboði og skráningu Arion banka á árinu en sú skráning hefði varðað veginn fyrir stjórnvöld við sölu á hinum bönkunum og markað fyrsta skrefið í því að koma á eðlilegu eignarhaldi á bankakerfinu. Fáir stjórnmálamenn hafa nokkurn skilning á mikilvægi þess að það gerist sem allra fyrst. Staðan er þessi. Þrátt fyrir mikinn efnahagsuppgang þá hefur Seðlabankinn engu að síður verið að lækka vexti enda hafa verðbólguvæntingar haldist undir markmiði bankans um langt skeið. Slíkar aðstæður í hagsögu Íslands eru fordæmalausar. Þetta kann núna að breytast. Frekari vaxtalækkanir á næstunni, eins og útlit var fyrir, virðast vera úr sögunni. Fjárfestar gera nú ráð fyrir mun meiri verðbólgu en áður og hættan er því frekar sú að Seðlabankinn sjái ástæðu til þess að breyta um kúrs og hækka vexti. Allt þetta og meira til er í boði Bjartrar framtíðar. Vonandi hafa kjósendur það í huga áður en þeir veita slíkum smáflokkum brautargengi í enn einum kosningunum – líklega þeim tilgangslausustu í lýðveldissögunni.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Jólaskreytingafyllerí: Eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í jólaskreytingum? Hildur Ýr Viðarsdóttir Skoðun
Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Jólaskreytingafyllerí: Eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í jólaskreytingum? Hildur Ýr Viðarsdóttir Skoðun