Peter Madsen var í dag úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald grunaður um að hafa orðið sænsku blaðakonunni Kim Wall að bana. Saksóknari í málinu kynnti ný sönnunargögn sem benda til þess að wall hafi verið stungin alls 14 sinnum skömmu eftir að hún lést. DR greinir frá.
Saksóknari fór fram á að Madsen yrði úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Hann hefur verið í haldi lögreglu frá því í ágúst eftir að Wall hvarf. Síðast sást til hinnar þrítugu Wall fimmtudaginn 10. ágúst en hún var með Madsen í kafbáti hans í þeim tilgangi að skrifa um kafbátinn og siglinguna.
Skömmu síðar rak kvennmanslík á strendur Amager, sundurlimað, og reyndist það vera lík Wall. Var Madsen handtekinn en hann hefur játað að hafa kastað líki hennar fyrir borð. Hann hefur þó sagt að Wall hafi látist af slysförum.
Stungusár á brjósti og klofi
Fyrir rétti í dag kynnti saksóknari niðurstöðu krufningar á líki Wall. Dánarorsök liggur enn ekki fyrir. Stungusár á brjósti og klofi hennar benda til þess að Wall hafi verið stungin eftir að hún lést.
Þá liggur einnig fyrir að sög var notuð til þess að saga höfuð, hendur og fætur af líki Wall en á beinum hennar mátti greina för eftir sagarblað.
Dómari í málinu taldi að grunur um aðild Madsend að dauða Wall væri enn fyrir hendi og var hann því úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald, til 31. október næstkomandi.

Þá fundust einnig leifar af DNA úr Wall á hálsi og undir nöglum Madsen. Þá sagði saksóknarinn einnig að ofbeldisfull myndbönd þar sem meðal annars mátti sjá konur teknar af lífi, ýmist með því að vera hengdar eða brenndar, hafi fundist í tölvu Madsen.
Neitar enn sök og segir marga hafa haft aðgang að tölvunni
Betina Hald Engmark, verjandi Madsen, segir að hann neiti enn sök í málinu. Taldi hún að ekki væri óeðlilegt að DNA úr Wall mætti finna á Madsen þar sem hann hafi viðurkennt að hafa snert hana eftir að hún lést. Þá sagði hún að saksóknar hefðu ekki skoðað möguleikann á því að um slys hafi verið að ræða.
Taldi hún einnig að saksóknarar hefðu ekki sýnt fram á neitt sem benti til þess að Madsen hefði verið valdur að dauða Wall. Varðandi myndböndin sem fundust í tölvu Madsen sagði hann sjálfu að margir hefðu aðgang að tölvunni og að ofbeldisfullu myndböndin væru ekki á hans vegum.
Fór Engmark fram á því að aðstæður í kafbátnum yrði endurskapaðar svo að rannsaka mætti málið til fulls.