Í gærkvöldi var seinni hlutinn um mál Lindu Rutar á Stöð 2 og var þá komið að því að fara út til Bretlands og reyna að finna Richard Guildford. Linda og Sigrún ferðuðust yfir í strandbæinn Weymouth til að freista þess að finna manninn.
Linda hefur leitað að föður sínum í rúman áratug, án árangurs en í þættinum í gærkvöldi náði hún loksins ætlunarverki sínu og fékk að hitta föður sinn. Hún komst einnig að því að hún ætti í raun bróðir og hitti Linda feðgana báða.

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir er umsjónarmaður þáttanna og tilkynnti hún Lindu í þættinum í gærkvöldi að þau hefðu loksins fundið föður hennar. Viðbrögð hennar voru eðlilega magnþrungin og tóku tilfinningarnar yfir.
„Þegar Sigrún segir við mig, á ég að segja þér? Ég missti allar varnir. Það fór allt,“ segir Linda Rut.
„Ég er svo þakklát að eiga þessa sögu og í svona svakalega fagmannlegu formi. Ég hefði aldrei geta ímyndað mér betra fólk til að skrásetja sögu mína. Sigrún er frábær og þessi nokkrir dagar í Weymouth líða mér seint úr minni. Þetta var yndislegt.“
Nánar verður rætt við Lindu í Fréttablaðinu á morgun.
Hér að neðan má sjá brot úr þættinum í gær.