Veginum um Mosfellsheiði hefur verið lokað en þar er ekkert ferðaveður að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til að aðstoða ökumenn sem þar hafa lent í vandræðum vegna skafrennings og ófærðar.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs fyrir Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland veestra. Er viðvörun í gildi fram eftir kvöldi og fram á morgun. Reiknað er með norðvestan 13-20 m/s með snjókomu og skafrenningi og búast má við lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum.
Veðurhorfur á landinu
Norðvestan 13-23 m/s og snjókoma eða él, hvassast NV-til. Hægari vindur og úrkomulítið á SA- og A-landi, frost 0 til 7 stig. Dregur úr vindi í kvöld.
Norðaustan 10-18 og snjókoma norðantil á Vestfjörðum á morgun. Mun hægari vindur annars staðar og stöku él. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Norðaustan 5-13 m/s og snjókoma eða él norðan- og austanlands, en bjartviðri að mestu á suðvesturhorninu. Frost 0 til 7 stig.
Á föstudag:
Norðan 10-15 m/s og snjókoma um landið norðanvert, en þurrt og bjart veður S-til. Frost 0 til 8 stig.
Á laugardag:
A-læg átt, 8-15 m/s og bjartviðri sunnan- og vestanlands, en hægari vindur og stöku él norðan- og austanlands. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum N-lands.
Á sunnudag:
Suðaustan 8-15 m/s og skýjað en úrkomulítið um landið vestanvert, en hægari vindur og víða bjartviðri austantil. Hiti um og yfir frostmarki vestanlands, annars talsvert frost.
Á mánudag:
Líkur á sunnan strekkingi og hlýnandi veðri með rigningu sunnan- og vestanlands, en þurru veðri á Norður- og Austurlandi.
Mosfellsheiði lokað vegna veðurs
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
