Skoðun

Vinnufriður

Haukur Örn Birgisson skrifar
Umræðan um skipan dómara við Landsrétt hefur farið fram hjá fáum undanfarið. Ég er þó ekki viss um að margir hafi nennt að setja sig inn í umræðuna og því látið sér nægja að lesa fyrirsagnir í fjölmiðlum, sem gjarnan einkenndust af yfirlýsingum þeirra sem stóðu í einhvers konar pólitík í kringum þetta mikilvæga mál. „Spilling“, „réttaróvissa“, „flokksskírteini“ og „vantraust“ voru meðal helstu gífuryrðanna. Þessar fyrirsagnir gáfu ranga og ósanngjarna mynd af raunverulegri stöðu málsins.

Þeir sem hæst töluðu um mikilvægi þess að dómstólar landsins nytu trausts almennings voru þeir sömu og notuðu bragðmestu yfirlýsingarnar þegar þeir töluðu niður þá dómaraskipun sem varð ofan á við meðferð málsins. Það var engu líkara en að þeir teldu þá umsækjendur, sem skipaðir voru af Alþingi, vanhæfa til starfans. Engu máli virtist skipta að allt voru þetta dómarar við héraðsdóma landsins, með áralanga dómarareynslu í farteskinu, sem jafnvel höfðu setið sem dómarar í Hæstarétti Íslands! Ekki vildi ég vera í sporum þessara ágætu umsækjenda, sem rúnir voru trausti af fólki sem situr á Alþingi, hvorki meira né minna.

Bíóið hélt svo áfram fyrir skemmstu þegar lögmaður einn, fyrir hönd skjólstæðings síns, lagði fram kröfu um að tiltekinn dómari við Landsrétt myndi víkja sæti í máli vegna meints vanhæfis dómarans. Þessi dómari hafði nefnilega ekki verið meðal þeirra sem, að því er virðist óskeikul, dómnefnd taldi hæfasta til starfans. Réttilega var kröfunni hafnað og var henni svo vísað frá Hæstarétti. Þrátt fyrir það, virðist hún aftur ætla að rata á borð réttarins á næstunni.

Það er löngu kominn tími til að þessu farsakennda leikriti í kringum skipan Landsréttardómara ljúki. Dómstóllinn á skilið traust, virðingu og umfram allt vinnufrið.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×