Stefán hefur unnið að rannsóknum á sviði fjármála um árabil. Veiðigjöldin voru fyrst sett á 2004 og komu þá í stað fyrri gjalda sem höfðu hvílt á útgerðinni. Veiðigjöld voru í upphafi lág en hækkuðu verulega í tíð vinstri stjórnarinnar eftir hrun og hafa hækkað áfram ef frá er talið árið 2015 .
Tilgangur veiðigjalda er að skattleggja rentuna og greiða kostnað við stjórnun auðlindarinnar. Auðlindarenta er sá umframhagnaður er kemur til vegna nýtingar á takmarkaðri auðlind í eigu alls samfélagsins.
„Í öðrum atvinnugreinum með fullkominni samkeppni leiðir umframhagnaður til þess að nýir aðilar hefja starfsemi. Núverandi aðilar á markaði stækka við sig. Aukin samkeppni leiðir síðan til þess að umframhagnaður hverfur,“ segir Stefán.

Engin auðlindarenta varð til í greininni fyrr en eftir hrun vegna þess að afli dróst saman allt frá 1990 og sjávarútvegsfyrirtækin hagræddu í rekstri eftir því. Hins vegar gerist það eftir hrun að afli eykst hratt án þess að fjöldi starfa aukist samhliða því. Einnig veiktist gengi krónunnar gríðarlega á þessum tíma sem jók á hagnað útgerðanna.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa oft gagnrýnt hvernig auðlindagjaldið er upp sett og að margar minni útgerðir eigi afar erfitt með að greiða af veiðigjöldin.
„Eins og staðan er núna eru veiðigjöld of há þar sem við erum að greiða veiðigjöld af fiskveiðiárinu 2016. Íslenska krónan stendur gríðarlega sterkt og við hjá SFS finnum fyrir því að þetta sligi margar útgerðir,“ segir Jens Garðar Helgason, formaður SFS. „Útgerðin hefur skilað miklum tekjum í þjóðarbúið og við erum stolt af því. Hins vegar er erfitt að greiða auðlindagjald tveimur árum eftir að fiskveiðiári lýkur.“