Lögreglustjóri í Mjanmar skipaði lögregluþjónum að leiða tvo blaðamenn Reuters í gildru. Þeir ættu að lokka þá á veitingastað með því að lofa þeim leyniskjölum og svo handtaka þá. Þetta fullyrti lögreglustjórinn Moe Yan Naing í skýrslutöku fyrir dómi í máli gegn Reuters-blaðamönnunum Wa Lone og Kyaw Soe Oo í gær.
Réttarhöldin yfir Lone og Oo hafa staðið yfir frá því í janúar en blaðamennirnir eru ákærðir fyrir að brjóta upplýsingalög. Þeir eiga yfir höfði sér fjórtán ára fangelsisdóm en umfjöllunin sem þeir unnu að snerist um þjóðernishreinsanir á Róhingjum í Rakhine-héraði Mjanmar.
Blaðamennirnir höfðu sagt frá því að þeir hefðu verið handteknir sekúndum eftir að þeir fengu skjölin í hendurnar. Lögreglumennirnir tveir sem handtóku Lone og Oo hafa ekki enn borið vitni í málinu.
Myo Thu Soe, ofursti og talsmaður lögreglunnar, sagði vitnisburð Naing byggðan á tilfinningum lögreglustjórans. Ekki væri hægt að gera ráð fyrir því að frásögnin væri sönn.
Amal Clooney, einn verjenda blaðamannanna, sagði í yfirlýsingu í gær að ákæruvaldið ætti að fella niður ákæru sína. Annars myndi dómari vísa málinu frá.
