Alþjóðdeild ríkislögreglustjóra sendi þessa fyrirspurn að beiðni embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum sem hefur rannsakað þjófnað á 600 tölvum, sem voru sérbúnar til að grafa eftir rafmyntinni Bitcoin, í desember og janúar síðastliðnum. Fréttamaður Ríkisútvarpsins setti sig í samband við embættið á Suðurnesjum fyrir helgi eftir að hafa séð frétt um málið á vef ríkisfréttastofunnar í Kína.
Þar kom fram að lögreglan í kínversku borginni Tianjin hefði lagt hald á sex hundruð Bitcoin-tölvur þriðjudaginn 24. apríl síðastliðinn.

Kínverska fréttastofan tekur fram að gröftur eftir Bitcoin-rafmynt útheimti mikla rafmagnsorku en talið er að rafmagnsreikningur fyrir sex hundruð slíkar tölvur sé um nokkur hundruð þúsund yuan á mánuði, sem er um nokkrar milljónir íslenskra króna.
Jóhannes Jensson, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir í samtali við Vísi að lítið hafi gerst síðan fyrirspurn var send til Kína. „Þetta er athyglisvert hvað svo sem kemur út úr þessu. Við höfum engin svör fengið, þannig að þetta er allt á sama stað. Þetta eru eflaust ekki fljótustu samskipti í heimi þarna langt austur eftir.“

Hann var vistaður í fangelsinu að Sogni en fór þaðan 16. apríl síðastliðinn eftir að dómari hafði tekið sér frest til að ákveða hvort að úrskurða ætti Sindra í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna málsins.
Sindri fór frá landinu aðfaranótt 17. apríl síðastliðins en var handtekinn í Amsterdam sunnudagskvöldið 22. apríl síðastliðinn. Sindri er vistaður í fangelsinu Zaandam í Hollandi og bíður þess að vera framseldur til Íslands en hann heldur fram sakleysi sínu í málinu. Búist er við að hann komi til Íslands á föstudag.
Fréttin var uppfærð klukkan 14:20