Hryðjuverkasamtökin al-Shabaab segjast bera ábyrgð á árás sem bandarískur hermaður féll í í Sómalíu í gær. Fjórir hermenn særðust einnig þegar skotið var á þá þar sem þeir tóku þátt í bardaga með um 800 hermönnum frá Sómalíu og Kenía.
„Við réðumst á herstöð, felldum einn bandarískan hermann, tvo frá Kenía og níu sómalíska hermenn frá Jubbaland héraði. Við særðum einnig fjóra bandaríska hermenn,“ sagði Abdiasis Abu Musab, talsmaður al-Shabaab við Reuters í gærkvöldi.
Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna sögðu frá því í gær að sérsveitarmaður þeirra hafði fallið í árás og að fjórir hefðu særst. Þá var tekið fram í yfirlýsingu að einn sómalískur hermaður hefði særst. Talsmaður herafla Kenía segir að engir hermenn þeirra hafi verið í átökum í gær.
Abu Musab segir árásina hafa átt sér stað í bænum Kismayo.
Umræddir hermenn Bandaríkjanna, Sómalíu og Kenía voru að vinna í því að reka vígamenn al-Shabaab frá þorpum á svæðinu og að byggja upp varanlega herstöð. Um 500 bandarískir hermenn eru staðsettir í Sómalíu.
Vígamenn al-Shabaab voru reknir á brott frá Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, árið 2011. Þeir eru enn áhrifamiklir víða í landinu og þá sérstaklega í dreifbýli. Markmið þeirra er að koma ríkisstjórn landsins frá völdum og byggja eigið ríki á túlkun þeirra á íslömskum lögum.
Al-Shabaab lýsir yfir ábyrgð á dauða bandarísks hermanns
Samúel Karl Ólason skrifar
