En hryggbrotnir áhangendur Jons Snow og félaga eygja nú von um áframhaldandi gósentíð, þar sem sjónvarpsstöðin HBO hefur ákveðið að láta hefja framleiðslu á svokölluðum for-framhaldsþætti (e. prequel) sem á að gerast nokkur þúsund árum áður en atburðir hinna upprunalegu sjónvarpsþátta eiga sér stað.

George R. R. Martin handritshöfundur þáttarins
Hefur HBO pantað einn prufuþátt og eftir að hann hefur verið gerður mun stöðin taka endanlega ákvörðun um hvort ráðast skuli í áframhaldandi framleiðslu.Óhætt er að segja að Game of Thrones aðdáendur hafi ríka ástæðu til bjartsýni, þar sem George R. R. Martin, höfundur bókanna sem þættirnir byggja á, er handritshöfundur þáttarins auk þess að vera viðriðinn framleiðslu.
Auk hans skrifaði kvikmynda- og sjánvarpsþáttaframleiðandinn Jane Goldman handritið, en hún gerði garðinn frægan með framleiðslu á myndum á borð við Kick Ass og Kingsman: Secret Service. Mun Goldman hafa yfirumsjón með framleiðslu þáttanna ef af henni verður.
Í ofanálag hafa undanfarið borist fregnir þess efnis að HBO hafi ráðið til sín einvalalið handritshöfunda í því skyni að skrifa mögulegar framhaldsseríur af þáttunum og að unnið sé að fjórum mismunandi handritum að mögulegum arftaka þáttanna.

„Lúxusvandamál sem ég skal leysa“
Casey Bloys hjá HBO, sagði í samtali við Hollywood Reporter að engir þættir tengdir Game of Thrones batteríinu færu í loftið fyrr en í fyrsta lagi ári eftir að síðasta þáttaröðin hefði runnið sitt skeið, og að hann teldi ólíklegt að fleiri en ein framhaldssería af þáttunum kæmist upp úr handritsferlinu og í framleiðslu.„Þessir þættir eru virkilega sérstakir. Ég er ekki að reyna að framleiða eins marga og hægt er. Mín tilfinning er sú að við værum gríðarlega heppin ef eitt fjögurra handrita nær þeim stöðlum sem við höfum sett. Nú, fræðilega, ef öll handritin eru frábær, þá er það gríðarlegt lúxusvandamál sem ég skal leysa þegar að því kemur.“