Í húsinu hafa búið allt að 16 hælisleitendur í einu en Reykjavíkurborg hefur verið með húsið á leigu síðan 2015. Dæmi er um að í húsinu hafi dvalið einstaklingar sem hafa sætt farbanni og verið undir rafrænu eftirliti og beiðið dóms. Í fréttum Stöðvar 2 í júní lýstu íbúar í Stigahlíð áhyggjum sínum af aðbúnaði íbúa hússins og öryggi í hverfinu.

„Þetta náttúrlega er alltaf viðkvæmur málaflokkur. Við erum að fá fólk alls staðar að úr heiminum og í mismunandi ástandi og mismunandi bakrunn og við þurfum að bregðast við í hvert sinn á hverjum stað fyrir sig,“ segir Sigþrúður. „Við höfðum reglubundið eftirlit þannig að við gerðum samning líka við öryggismiðstöð um það að koma inn í húsnæðið þegar það voru ekki starfsmenn að koma héðan þannig að það voru innlit þarna nokkrum sinnum á dag.”
Að sögn Sigþrúðar hefur borgin leitast við að eiga í góðu sambandi við íbúa en leigusamningi sem rennur út um áramótin verður ekki framlengt. „Við höfum ákveðið sem sagt að breyta þessu úrræði og færa okkur um set,“ segir Sigþrúður. „Þessa stundina eru fjórir í húsinu og við áætlum að það verði orðið tómt núna í lok vikunnar.“