Einfalt með Evu fór í loftið á Stöð 2 á dögunum en í þáttunum matreiðir Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir frábæra en á sama tíma einfalda rétti.
Uppskriftirnar verða ávallt aðgengilegar hér á Vísi. Hér að neðan má sjá uppskrift úr þætti gærkvöldsins. Þar sýndi Eva hvernig hægt sé að reiða fram ítalskar kjötbollur með mozzarella fyllingu.
Ítalskar kjötbollur með mozzarella fyllingu í æðislegri tómat – og basilíkusósu
Uppskrift:
- 500 g nautahakk
- 1 stórt egg
- 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
- ½ laukur
- 1 msk smátt söxuð basilíka
- 1 msk smátt söxuð steinselja
- 2 msk hveiti
- 14 -16 litlar mozzarella kúlur
- 2 msk. ólífuolía
- 400 g spaghetti
- Nýrifinn parmesan, magn eftir smekk
- Tómat- og basilíkusósa, uppskrift hér að neðan
Aðferð:
- Blandið nautahakki, eggi, smátt söxuðum lauk, nýrifnum hvítlauksgeirum, smátt saxaðri steinselju, basilíku og hveiti saman í skál. Kryddið til með salti og pipar. Notið hendurnar til þess að þjappa deiginu vel saman.
- Mótið litlar kúlur, fletjið þær örlítið út og setjið litla mozzarellakúlu fyrir miðju og þjappið deiginu utan um ostinn.
- Steikið kjötbollurnar upp úr olíu þar til þær eru stökkar á öllum hliðum.
- Útbúið sósuna og sjóðið spaghettí samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
- Berið bollurnar fram með æðislegri tómat- og basilíkusósu, spaghettí og nýrifnum parmesan.
Tómat- og basilsósa
- 1 laukur, smátt skorinn
- 2 hvítlauksrif, marin
- 500 ml hakkaðir tómatar
- 1/2 kjúklingateningur
- 1 msk.fersk steinselja, smátt söxuð
- 1 msk. fersk basilíka, smátt söxuð
- Salt og pipar, magn eftir smekk
Aðferð:
- Hitið olíu við vægan hita í potti, steikið lauk og hvítlauk í olíunni í 1 – 2 mínútur eða þar til laukarnir eru mjúkir í gegn.
- Bætið öllu hinu í pottinn og leyfið sósunni að malla í örfáar mínútur.
Hér að neða má sjá hvernig maður gerir réttinn.