Öflugar dælur voru fluttar til Helguvíkur í nótt til að taka við olíudælingu úr sementsflutningaskipinu Fjordvik, sem strandaði þar í fyrrinótt, þar sem dæling gekk ekki sem skyldi í gær. Henni var hætt í gærkvöldi eftir að ákveðið var að fá öflugri dælur.
Reiknað er með að dæling geti hafist að nýju í birtingu, en tugir tonna af olíu eru enn í skipinu. Alls voru 104 tonn af gasolíu þar um borð þegar það strandaði.
Eins og komið er fram er kominn sjór í vélarrrúmið, vistarverur undir þiljum og eitthvað í lestina, þar sem sementið verður að klumpi ef það blotnar.
Vonast er til að kafarar geti kannað skemmdir á botni skipsins nánar í dag og metið hvort eitthvað er hægt að gera svo að óhætt sé að draga skipið af strandstað án þess að það sökkvi, en veðurspá er óhagstæð fyrir morgundaginn.
