Vísindamenn við Háskóla Íslands hleyptu verkefninu af stokkunum vorið 2018. Rannsóknin miðar að því að skapa þekkingu um umfang, áhættuþætti og heilsufarslegar afleiðingar áfalla og ofbeldis sem konur verða fyrir. 50 þúsund konur hafa þegar fengið boð um þátttöku og hafa 23 þúsund þeirra nú svarað spurningalista sem finna má á vef rannsóknarinnar.
Áföllin mismunandi
Arna Hauksdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, er annar forsprakki rannsóknarinnar. Hún segir í samtali við Vísi að fyrstu niðurstöður varpi m.a. ljósi á það hversu fjölbreyttum áföllum konur geta orðið fyrir.„Við sjáum aðallega þetta með að fjórða hver kona sem er búin að svara hefur orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun. En við erum náttúrulega líka að skoða ótrúlega ólík og mismunandi áföll, þannig að þetta eru ekki bara ofbeldistengd áföll,“ segir Arna.
Sjá einnig: Þakklátar konur strax byrjaðar að rjúka á hana í sundi
„Við sjáum til dæmis að 40% hafa upplifað framhjáhald eða höfnun frá maka, og 30% hafa orðið fyrir erfiðri fæðingarreynslu. Þessi dæmi sýna hvað áföll geta verið mismunandi og þetta snýst ekki alltaf bara um ofbeldisáföllin, heldur er svo margt annað sem getur komið fyrir mann og getur síðan haft áhrif á heilsu og lífsgæði.“
Hærra hlutfall en rannsóknir hafa sýnt
Að sögn Örnu eru rannsakendur þó ekki byrjaðir að skoða tengsl á milli kynferðisofbeldis og annarra áfalla sem konur verða fyrir á lífsleiðinni.„En það hefur komið í ljós í erlendum og íslenskum rannsóknum að konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi geta upplifað ýmis vandkvæði í fæðingu, eða að barnið sem fæðist upplifi eitthvað slíkt.“

Þannig sé einnig hugsanlegt að þetta háa hlutfall endurspegli raunverulega tíðni þessara áfalla meðal kvenna á Íslandi. Frekari gagnasöfnun frá fleiri konum og gagnagreining á komandi mánuðum muni leiða það í ljós. Í lok janúar verður svo haldinn stór kynningarfundur um rannsóknina þar sem farið vur dýpra í niðurstöður og þær tengdar við þætti á borð við áfallastreitu.
Eru í hálfleik
Eins og áður segir hafa 23 þúsund konur af þeim 50 þúsund sem fengu boð tekið þátt í rannsókninni. Aðspurð segir Arna að aðstandendur séu ánægðir með þátttökuna auk þess sem von sé á fleiri þátttakendum. 50 þúsund konur til viðbótar fá boð um þátttöku í rannsókninni í nóvember.„Þetta eru 23 þúsund konur og við erum enn þá í fullum gangi. Við eigum eftir að senda beint boð á helminginn af okkar rannsóknarhópi, þannig að við lítum svo á að við séum í hálfleik og ætlum að klára þetta fljótlega eftir áramótin.“