Stjórn Vaðlaheiðarganga kynnti veggjaldafyrirkomulag ganganna á fundi í gær. Stakt gjald fyrir fólksbifreið mun verða 1.500 krónur en ódýrast verður að kaupa hundrað ferðir á 700 krónur ferðina. Gjald fyrir stórar bifreiðar, yfir 3.500 kíló, verður 6.000 krónur.

Hilmar Gunnlaugsson, formaður stjórnar Vaðlaheiðarganga, segir að endanlegur kostnaður við göngin muni liggja í kringum 17 milljarða króna og samkvæmt útreikningum fyrirtækisins ætti að vera hægt að greiða upp lánið á um 28 árum. Einnig sagði hann að vextir af langtímalánum verði ekki hærri en 4,2 prósent.

Ef vextir af 17 milljörðum verða um fjögur prósent er líklegt að vaxtakostnaðurinn hlaupi á hundruðum milljóna króna.
Mikill vatnselgur í göngunum, með bæði heitu og köldu vatni, gerði gangamönnum erfitt um vik. Vatnselgurinn kom ekki fram í tilraunaborunum á sínum tíma þrátt fyrir að bergið í Vaðlaheiðargöngum hafi verið meira rannsakað en í Hvalfjarðargöngunum á sínum tíma.
Umferð um svæðið hefur aukist um 60 prósent frá því ákveðið var að hefja framkvæmdir við göngin. Sú aukning, sem er að miklu leyti vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustu, kemur sér afar vel fyrir framkvæmdaraðila en án hennar væri ljóst að tekjurnar myndu aldrei standa undir kostnaðinum.