KSÍ segir frá því á heimasíðu sinni að þeir þúsund ársmiðar sem fóru í sölu í hádeginu eru nú uppseldir. Í athugun er þó að bæta við fleiri ársmiðum og kemur tilkynning vegna þess á heimasíðu KSÍ á morgun.
KSÍ bauð til sölu ársmiða á alla fimm heimaleiki Íslands í undankeppni EM 2020, sem fara fram á Laugardalsvelli frá júní fram í október 2019. Ársmiðahafar fá kort með nafninu sínu og upplýsingum um sæti. Kortið verður strikamerkt og gildir sem aðgöngumiði á alla leikina.
Heimaleiki Íslands verða 8. júní á móti Albaníu, 11. júní á móti Tyrklandi, 7. september á móti Moldóvu, 11. október á móti Frakklandi og 14. október á móti Andorra.
Þeir sem keyptu ársmiðan í dag fá þá afhenta eða sendir í pósti í gjafaöskju með óvæntum glaðningi. „Tilvalin jólagjöf fyrir allt knattspyrnuáhugafólk!,“ eins og kom fram í frétt á ksi.is um söluna.
Auk þess að tryggja ársmiðahafa sæti á öllum heimaleikjum Íslands í undankeppni EM 2020 fá korthafar aðgang að opinni æfingu liðsins á árinu 2019. Errea veitir ársmiðahöfum líka fimmtán prósent afslátt af landsliðsvörum. Þá geta heppnir ársmiðkaupendur átt von á að vinna baksviðspassa Vodafone á heimaleikjum.
KSÍ var eingögnu með ársmiðasölu að þessu sinni en sala á staka leiki íslenska landsliðsins verður auglýst síðar.