Fíkniefnasalar snúa sér í auknum mæli að smygli á lyfseðilsskyldum lyfjum þar sem gróðinn er meiri, áhættan minni og viðurlögin vægari. Eftirspurnin er einnig mikil enda kaupir þriðjungur þeirra sem kemur á Vog lyfseðilsskyld lyf á svörtum markaði.
Daníel Bjarnason er að leggja lokahönd á aðra seríu þátta sem nefnast Burðardýr og fjalla um persónulegar sögur fólks sem smyglar fíkniefnum og lyfjum ólöglega til landsins. Hann upplifði í gegnum viðtöl sín fyrir þessa seríu að notkun læknadóps og smygl á því til landsins sé að aukast.
„Við erum með viðtal við mann sem byrjaði á því að smygla inn e-pillum, svo kókaíni, fór svo yfir í læknadópið því það var miklu auðveldara og meiri gróði í því. Hann kaupir pilluna á 300 krónur og selur hana síðan á 8000 krónur. Hann sagði áhættuna miklu minni en ef hann smyglar inn litlu magni af kókaíni,“ segir Daníel um viðtal sem verður í loka þætti seríunnar.
Þriðjungur kaupir lyfseðilsskyld lyf
Hann segir rótlausa æsku einkenna marga sem hann ræddi við en í fyrsta þættinum sem sýndur verður á Stöð 2 í kvöld segir Inga Lind Gunnarsdóttir sögu sína og fer yfir þau áföll sem hún upplifði íæsku og hvernig þróunin var fram að afdrifaríkri ferð til Amsterdam. Valgerður Bjarnadóttir, yfirlæknir á Vogi segir um þriðjung þeirra sem koma á Vog kaupa lyfseðilsskyld lyf á svörtum markaði. Fjölgun sé hjáþeim sem greinast meðópíóíðafíkn, sem er neysla á sterkum morfínskyldum lyfjum. Samkvæmt nýjum tölum frá landlækni dró verulega úr ávísun ópíóíða lyfja hér á landi árið 2018. Erfitt er að meta hvort það hafi áhrif á framboð lyfja á svörtum markaði því ekki er alltaf vitað hvaðan lyfin koma sem rata áþann markað.
„Lögin við því að smygla inn sterkum verkalyfjum eru engan veginn þau sömu og varðandi fíkniefni, miklu harðar tekið á því. Þó alvarleikinn sé mun meiri í rauninni,“ segir hann um þær sögur sem hann heyrir um lyfseðilsskyldulyfin.
Fyrsti þáttur í annarri seríu burðardýra verður sýndur klukkan 21:15 á stöð 2 í kvöld.
