Menning

Opnar sýningu um túristastrauminn til landsins

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ragnheiður opnar sýninguna á laugardaginn.
Ragnheiður opnar sýninguna á laugardaginn.
Ragnheiður Þorgrímsdóttir lauk BA námi í myndlist frá Academia Di Belle Arti i Flórens á Ítalíu 2015 og stundaði framhaldsnám í New York Academy of Art þar sem hún útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist 2017.

Túristinn sem blessaði Ísland er fyrsta opinbera einkasýning Ragnheiðar á Íslandi. Sýningin verður opnuð á laugardaginn í Gallery Port við Laugaveg 23b.

Helsti miðill Ragnheiðar hefur hingað til verið málverkið. Verkin hennar síðustu ár sýna vel þrá hennar í íslenska náttúru og melankólíu eftir langa dvöl erlendis. Nú fæst hún við mannveruna í náttúrunni og afleiðingar massa túrisma.

Í verkum hennar er ekki einnig verið að tala um hvað ferðamannastraumurinn og við erum að gera náttúrunni á Íslandi, heldur mætti einnig túlka hvað mannveran er að gera heiminum.

Verkin hafa dularfullt og klassískt yfirbragð en inn á milli má einnig skynja í þeim húmórískan undirtón.

Hér að neðan má lesa ljóð eftir Ragnheiði sem tengist sýningunni:

Túristinn sem blessaði Ísland.


Ég átti stað. 

Lítil paradís í miðju hrauninu. Hún geymir æskuminningar, vinavitleysu og ástarævintýri. 

Það var spariferð að sækja sér orku hjá vinkonu minni lauginni og skíra sig í faðmi náttúrunnar.

Í dag er litla laugin farin, allir andarnir sem bjuggu þar eru fluttir. Brú hefur verið byggð yfir litla lækinn og gamli malarvegurinn er opið sár. Ég er í röð. Á undan mér eru 10 bílar og kringum laugina eru tjöld og tjaldvagnar, og “kúka kamping” bílar.

Mig langar ekki að baða mig þarna meir.

Klósettpappír fýkur í vindinum. Fuglarnir blygðast sín. Allir líta undan og segja ekkert.

Laugin er dáin. Það eina sem ég get gert er að minnast hennar einsog hún var. 

Mála portrett af henni.

Ég gleymi þér aldrei.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.