Mikil reiði er nú ríkjandi meðal umhverfisverndarsinna meðal annars vegna reisu atvinnuveganefndar til Noregs þar sem hún er að kynna sér sjókvíaeldi í Noregi. Þeir telja einsýnt að keyra eigi í gegn frumvarp sem felur í sér breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem snúa að fiskeldi. Bæði Kjarninn sem og Stundin hafa fjallað skilmerkilega um frumvarpið sem og þessa ólgu vegna hinnar umdeildu farar.
Efast um trúverðugleika nefndarinnar
Í umsögn frá Landssambandi veiðifélaga er það meðal annars gagnrýnt að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra geti samkvæmt nýjum lögum hunsað ráðleggingar sérfræðinga, reyndar telja þeir frumvarpið vantraustsyfirlýsingu ráðherra á Hafrannsóknarstofnun. Þeir sem fara fyrir umhverfisverndar- og veiðifélögum telja einsýnt að málið muni aldrei fá réttláta málsmeðferð. Reyndar eru umsagnir við frumvarpið afar harðorðar sumar hverjar. Fyrsta umræða um ný lög var á þinginu í gær.
„Þetta sýnir í hnotskurn hversu greiðan aðgang hagsmunagæslumenn sjókvíaeldisins hafa að alþingismönnum og ráðherra málaflokksins.

„Ótrúlegt að horfa uppá þetta“
Jón Þór Ólason er formaður Stangveiðifélagi Reykjavíkur. Hann er einn þeirra sem skilaði inn ítarlegri umsögn um umrætt frumvarp. Honum blöskrar ferð atvinnuveganefndar í fylgd hagsmunaaðila:„Þetta er í sjálfu sér stórmerkilegt - sýndarheimsóknir til þeirra sem eru á móti fiskeldi en svo er siglt með bros á vör með þeim sem eiga hagsmuni að gæta og kvíar skoðaðar. Skoða verður málið frá báðum hliðum en slagsíðan á þessari heimsókn er bersýnileg. Á meðan nefndin sem kemur til með að fá laxeldisfrumvarpið er í Noregi er fyrsta umræða keyrð á stað í þinginu án fyrirvara. Ótrúlegt að horfa upp á þetta.“

Skælbrosandi með stjórnarformanninum
Jón Þór birti mynd á Facebooksíðu sinni og ljóst er að honum er brugðið:„Þessir herramenn eru skælbrosandi. Kolbeinn Óttarsson Proppé og Kjartan Ólafsson. Kolbeinn er þingmaður flokks sem kennir sig við náttúruvernd en Kjartan er stjórnarformaður Arnarlax, stærsta netapokaeldisfyrirtækis á Íslandi, sem treður niður norskum laxi í íslenska náttúru,“ segir Jón Þór og hann heldur áfram:
„Arnarlax er að langstærstum hluta í eigu norska fyrirtækisins SalMar. Kolbeinn er í atvinnuveganefnd Alþingis sem er að kynna sér fiskeldi í Noregi á „hlutlausan hátt”. Á meðan nefndin nýtur traustrar fylgdar fyrirsvarsmanna íslenskra netapokafyrirtækja, freistar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að keyra í gegn breytingarfrumvarp á Alþingi á vanhugsuðu frumvarpi um fiskeldi.“
Nauðsynlegt að kynna sér málin
Freyr Gylfason, sem starfar fyrir Landssamband Fiskeldsstöðva og ritstýrir Fiskeldisblaðinu, telur þetta vart boðlegan málflutning:
Freyr segir að Kolbeinn Óttarsson Proppé hafi „kynnt sér þessi málefni mjög faglega í öðrum heimsóknum til Noregs og ef ég þekki hann rétt þá getur enginn haft áhrif á þær skoðanir sem hann hefur myndað sér á grundvelli þess sem hann hefur heyrt og séð í Noregi,“ segir Freyr. Og telur að þó Kolbeinn brosi fallega á ljósmynd með stjórnarformanni Arnarlax þá eigi menn ekki að þurfa að óttast að hagsmunaaðilar hafi áhrif á faglegar skoðanir og þekkingu þingmannsins.“
Boðar átök
Þessi orð eru ekki til þess fallin að milda gramt geð Jóns Þórs þó hann sé sammála því að vert sé að kynna sér stöðuna í Noregi, og það til hlýtar.
Jón Þór segir jafnframt þetta stórt mál sem þarfnist ítarlegrar og málefnalegrar umræðu. „Sama hvort þú ert fylgjandi sjókvíaeldi eður ei. Ekki fór málið vel af stað í þinginu enda virðast þingmenn litla þekkingu hafa á málefninu, en af orðfæri þeirra má sjá að þið hafið undirbúið ykkar málstað vel en þekking á málstað náttúrunnar virðist ekki vera til staðar. Nú fyrst munu átökin harðna.“
Fyrrverandi forseti þingsins talsmaður eldismanna
Enn einn verndunarsinni sem vill gjalda varhug við því í hvað stefnir er Haraldur Eiríksson en hann er veiðileyfasali í Bretlandi og stjórnarmaður í Icelandic Wildlife Fund.
Hann bendir á að nú, þegar Einar K. Guðfinnsson, fyrrum forseti Alþingis, hafi ráðið sig til vinnu sem talsmaður norskra sjókvíaeldismanna, sé ekki von á góðu.
„Hann er að verja ansi vafasaman málstað og gerir sér grein fyrir því. Hann heldur meðal annars úti áróðurssíðu Landssambands Fiskeldisstöðva á Facebook.“
Vestfirskar valkyrjur stýra nefndinni
Haraldur telur Einar á gráu svæði í hagsmunagæslu sinni:„Nú ber svo við að fyrrum starfsmenn laxeldisstöðva eru farnir að kvarta undan starfseminni og benda á ýmislegt vafasamt í þeirra starfsemi.

Haraldur bendir svo á að atvinnuveganefndin sé afar einsleit og það sýni til dæmis stöðufærsla Lilju Rafneyjar, formanns nefndarinnar, sem í síðustu kosningabaráttu lýsti yfir eindregnum stuðningi við fiskeldið. Lilja Rafney birti mynd af hluta nefndarinnar: „Vestfirskar valkyrjur stýra Atvinnuveganefnd sem er skemmtilegt.“ Og á myndinni má sjá þær Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur frá Ísafirði, Höllu Signý Kristjánsdóttur Önfirðing og Birgittu Kristjánsdóttur Bolvíking. Haraldur segir að það sé borin von að nefndin fjalli um þessi mál af hlutlægni.
Nú, þegar þetta er skrifað, er atvinnuveganefnd á heimleið frá Noregi.