Hannes samdi við Qarabag síðastliðið sumar og gerði þá tveggja ára samning. En hann segir að staða hans nú sé erfið.
„Það er erfitt að lýsa þsssu. Ráða í stöðuna og giska á hvað muni gerast. Það er algert frost eins og staðan er núna og þetta er skrýtið mál,“ sagði Hannes í samtali við Vísi í dag. En er hann að reyna að semja um starfslok hjá félaginu?
„Ég er alltaf að reyna að spjalla við menn þarna og finna út úr því hver næstu skref verða. Ég get ekki farið út í nein smáatriði. En það er ekkert leyndarmál að ég er óánægður með stöðuna, ég er ekki að spila og það er enginn glaður þegar hann er ekki að spila.“
Hannes Þór hefur verið sterklega orðaður við Val en vildi engu svara hvort að hann væri á leið í rauða búninginn strax í sumar.
„Þegar ég skrifaði undir hjá Qarabag var planið að vera þar í tvö ár og það er enn þannig. Svo verður bara að koma í ljós hvernig framtíðin verður. Hvort það verði Valur eða eitthvað annað, ég get ekki tjáð mig um það núna.“

Hann neitar því ekki og hefur aldrei gert, að hann er spenntur fyrir því að spila aftur heima á Íslandi.
„Ég hef alltaf stefnt á það að koma heim og spila. Ég hugsa hlýtt til Pepsi Max-deildarinnar og það hefur alltaf verið heillandi tilhugsun fyrir mig. Hvort sem það gerist núna í sumar, næsta eða þarnæsta - við verðum bara að sjá til.“
Fyrir núverandi landsliðsverkefni, sem Hannes er að búa sig undir, sagði þjálfarinn Erik Hamren að Hannes væri enn markvörður númer eitt hjá landsliðinu.
„Það var gott að heyra það frá þjálfaranum því undirbúningur minn síðustu vikurnar hafa snúist um þessa leiki.“