Öðrum degi af þremur var að ljúka á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 50 metra laug en keppt er í Laugardalnum.
Nokkur met voru sett í dag en Eva Margrét Falsdóttir, ÍRB, setti meðal annars aldursflokkamet er hún synti í 200 metra fjórsundi. Hún synti á 2:26,61 og bætti því tíu ára gamalt telpnamet.
Patrik Viggó Vilbergsson gerði sér lítið fyrir og setti þrjú piltamet; í 100 metra skriðsundi, 1500 metra skriðsundi og 800 metra sundi. Flottur árangur hjá Blikanum í dag.
Patrik setti ekki bara met í dag heldur öðlaðist einnig þáttökurétt á Evrópumeistaramóti unglinga. Það fer fram í Kazan í Rússlandi í júlí í sumar. Spennandi verkefni.
Eygló Ósk Gústafsdóttir nældi í gull í 100 metra baksundi og Kristinn Þórarinsson nældi sér í gullið í karlaflokki. Í 50 metra bringusundi var það Anton Sveinn McKee sem kom fyrstur í mark en í kvennaflokki var það Karen Mist Arngeirsdóttir.
Sveit SH vann bæði 4x100 metra fjórsund boðsund kvenna og karla. Sveitina í kvennaflokki skipuðu þær Steingerður Hauksdóttir, Sunna Svanlaug Vilhjálmsdóttir, Katarína Róbertsdóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir.
Í karlaflokki voru það þeir Kolbeinn Hrafnkelsson, Anton Sveinn McKee, Róbert Ísak Jónsson og Dadó Fenrir Jasminuson.
Nánari úrslit má finna á vefsíðu Sundsambandsins.
Met féllu á öðrum degi Íslandsmeistaramótsins
Anton Ingi Leifsson skrifar
