Víðáttumikil kyrrstæð 1040 mb hæð sem er yfir Skandinavíu og 983 víðáttumikil lægð sem er um 700 kílómetra suður af hvarfi á hægri leið norðaustur stýra veðrinu á landinu næstu tvo sólarhringa.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að í dag verði suðlæg átt á landinu, 8 til 15 metrar á sekúndu, en 15 til 20 metrar á sekúndu á Snæfellsnesi í kvöld.
Það má búast við dálítilli vætu í flestum landshlutum og víða samfelldri rigningu um tíma í kvöld en þurrt og léttir til um landið norðaustanvert með deginum.
Sunnan 10 til 15 metrar á sekúndu á morgun og rigning með köflum en léttskýjað norðaustan til. Það verður tiltölulega hlýtt, hiti á bilinu 7 til 16 stig. Hlýjast verður norðanlands en annað kvöld kólnar heldur.
Veðurhorfur á landinu:
Sunnan 8-15 m/s og lítilsháttar væta, en þurrt og bjart á Norður- og Austurlandi. Bætir heldur í vind og úrkomu í kvöld.
Sunnan 10-18 á morgun með rigningu og súld, en þurrt að kalla norðaustan til á landinu.
Hiti 7 til 16 stig, hlýjast norðaustanlands.
Á laugardag:
Suðvestan 8-15 m/s og rigning eða skúrir, en él til fjalla. Hiti 3 til 8 stig. Þurrt og bjart veður austanlands með hita að 12 stigum.
Á sunnudag (páskadagur):
Fremur hæg austlæg átt framan af degi og víða þurrt á landinu. Gengur í austan og norðaustan 8-15 eftir hádegi með rigningu á láglendi, en slyddu eða snjókomu til fjalla. Úrkomulítið um landið norðvestanvert. Hiti 2 til 8 stig.
Á mánudag (annar í páskum):
Norðaustan 8-13 norðan- og vestalands með rigningu eða slyddu og hita 1 til 6 stig. Hægari suðvestanátt um landið sunnan- og austanvert og stöku skúrir, hiti 4 til 9 stig.
Hæð og lægð við stjórnvölinn í veðrinu næstu tvo sólarhringa
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
