Lífið

Afhentu áströlsku söngkonunni heiðurssleggju Hatara

Kolbeinn Tumi Daðason í Tel Aviv skrifar
Klemens, Einar Hrafn og Matthías Tryggvi ásamt Kate Miller-Heidke.
Klemens, Einar Hrafn og Matthías Tryggvi ásamt Kate Miller-Heidke. Gísli Berg
Kate Miller-Heidke, sem flytur framlag Ástralíu í Eurovision þetta árið, er fyrsti handhafi heiðurssleggju Hatara. 

„Við höfum fylgst með verkum þínum, hugrekki og vilja gegn kapítalismanum í gegnum alla keppnina. Sem þakklætisvott viljum við veita þér fyrstu heiðurssleggju Hatara. Vinsamlegast notaðu hana til að tortíma andstæðingum þínum á friðsamlegan hátt,“ sagði Matthías sem tók sér stöðu ofan á litlu borði á meðan Klemens hneygði sig og afhenti sleggjuna.

„Kærar þakkir. Þessi viðurkenning hefur mikla þýðingu fyrir mig. Mig hefur alltaf langað í eina svona. Ég held að sleggjan gæti reynst mér vel á morgun,“ sagði Kate full af þakklæti.

„Klárlega,“ bætti Matthías við.

Afhending sleggjunnar fór fram baksviðs í Expo Tel Aviv höllinni augnablikum áður en Hatari steig á svið og flutti Hatrið mun sigra fyrir fullum sal af fólki og dómnefndum í þátttökulöndunum.

Líklegt má telja að heiðurssleggjan sé ekki afhent til eignar heldur sé um táknræna afhendingu að ræða. Sleggjan er þó ekki sú sama og sú sem Einar Hrafn Stefánsson, trommugimp með meiru, notar í atriði íslensku sveitarinnar.

Ekki var annað að sjá á Kate en hún tæki viðurkenningunni vel. Hún stillti sér upp á mynd með drengjunum en sú ástralska er 25. á svið í kvöld eða næstsíðust. Ólíklegt má telja að Kate noti sleggjuna í atriði sínu sem reynir mikið á jafnvægi þar sem hún svífur um að því virðist í lausu lofti með hjálp langrar stangar sem sést þó ekki í sjónvarpsútsendingunni.

Fróðlegt verður að sjá hvort fleiri fái afhenta heiðurssleggju Hatara áður en Eurovision-ævintýrinu lýkur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.