Íslenskur maður er í haldi lögreglu í Þýskalandi vegna meintrar aðildar að fíkniefnasmygli. Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að ráðuneytinu sé kunnugt um málið og borgaraþjónustan veiti hefðbundna aðstoð vegna þess.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er mál mannsins tengt rannsókn á innflutningi mikils magns kókaíns til Íslands en fjórir sitja í gæsluvarðhaldi hér á landi vegna rannsóknar þess máls.
Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að málið sem kom upp 12. maí síðastliðinn ætti uppruna sinn í Frankfurt en það voru landamæraverðir í Þýskalandi sem gerðu íslenskum yfirvöldum viðvart um málið. Í kjölfarið voru fjögur ungmenni handtekin hér á landi og úrskurðuð í gæsluvarðhald.
Heimildir blaðsins herma að efnið, allt að 20 kíló af kókaíni, komi frá Brasilíu. Það var falið í ferðatöskum og flutt með farþegavél frá Frankfurt.
Málið er rannsakað af lögreglunni á Suðurnesjum í samstarfi við þýsk lögregluyfirvöld ásamt tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Íslendingur í haldi þýsku lögreglunnar
Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
