„Það er fjarri mér að fara að standa í einhverjum frekari rökræðum um þetta mál, það liggur bara svona, einfalt og skýrt fyrir,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við Fréttablaðið, þegar hann var spurður út í ummæli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, í garð forsætisnefndar. Þórhildur Sunna kallaði forsætisnefndina „gjörspillta á samtryggingu karlaklíkunnar“ í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á sunnudag.
Forsætisnefnd féllst í síðasta mánuði á niðurstöðu siðanefndar þess efnis að Þórhildur Sunna hefði brotið siðareglur með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. „Ég kalla þá forsætisnefnd gjörspillta á samtryggingu karlaklíkunnar sem neitar að taka afstöðu til nokkurs nema framkomu ungrar konu í stjórnarandstöðu sem móðgaði miðaldra karl,“ sagði Þórhildur Sunna.
Steingrímur hafnar því alfarið að forsætisnefnd sé spillt. „Einhver ummæli um spillta forsætisnefnd eiga náttúrulega í sjálfu sér ekki við, það ætti að beina þeim spjótum að siðanefndinni en að sjálfsögðu ekki forsætisnefndinni. Það er niðurstaða siðanefndar sem er látin standa,“ segir Steingrímur og bendir á að allir málsaðilar hafi óskað eftir því að málinu yrði skotið til siðanefndar sem var og gert. Málið hafi því legið einfalt fyrir forsætisnefnd sem hafi gert þá niðurstöðu að sinni.

