Leikstjóri myndarinnar er Todd Phillips en Jókerinn tilheyrir myndasagnaheimi DC og er jafnan sagður erkióvinur Batman.
Leðurblökumaðurinn er þó hvergi sjáanlegur í þessari mynd. Einblínir hún eingöngu á forsögu Jókersins, hvað það var sem gerði hann svona skelfilega illa innrættan og sturlaðan.
Er framsetning myndarinnar sögð afar huguð en með önnur hlutverk fara Óskarsverðlaunahafinn Robert De Niro, Marc Maron og Zazie Beetz.
Gagnrýnandi Hollywood Reporter hrósar sérstaklega Joaquin Phoenix fyrir að gera Jókerinn svo aumkunarverðan en á sama tíma stafar gegndarlaus ógn af honum. Áhorfendur fá samúð með þessu varmenni á sama tíma og þeir eru dauðhræddir við hann.

Jim Vejvoda, gagnrýnandi IGN, segir myndina einnig sækja innblástur í Clockwork Orange og Dog Day Afternoon. Hann segir leikstjórann Todd Phillips kalla fram vorkunn í garð Jókersins en þó sé enginn tilbúinn að fyrirgefa honum fyrir þau myrkraverk sem hann fremur.
Gagnrýnandi Forbes segir Joker eina af bestu myndum ársins og eins og allir hinir gagnrýnendurnir bendir hann á að stjörnuleikur Joaquin Phoenix beri myndina uppi. Er hann sagður ekki aðeins á pari við þann Jóker sem Heath Ledger túlkaði í The Dark Knight, heldur mögulega aðeins betri.
Í myndinni leikur Joaquin Phoenix uppistandarann Arthur Fleck sem reynir að koma sér á framfæri í Gotham-borg. Hann stendur fremur höllum fæti í þeim bransa og er sagður fara yfir um eftir að spjallþáttastjórnandi, sem Robert De Niro leikur, gerir lítið úr honum.
Myndin verður frumsýnd 4. október á Íslandi.