Katrín Jakobsdóttir ávarpaði fund norrænu verkalýðshreyfinganna í dag.Vísir/vilhelm
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði ársþing norrænu verkalýðshreyfinganna í Malmö í Svíþjóð í dag. Katrín mun einnig funda í Danmörku áður en hún kemur aftur til Íslands og fundar með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, á Keflavíkurflugvelli.
Í ávarpi sínu fjallaði Katrín sérstaklega um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við lífskjarasamningana. Frá þessu er greint á vef stjórnarráðs Íslands. Þá hafi forsætisráðherra talað um nauðsyn þess að félagslegur og efnahagslegur stöðugleiki fari saman.
Katrín Jakobsdóttir á fundinum í Malmö í dag.stjórnarráð ÍslandsLoftslagsbreytingar voru einnig í brennidepli hjá Katrínu en hún ræddi sérstaklega áskoranir tengdar loftslagsvanda og nauðsyn þess að stjórnvöld vinni með verkalýðshreyfingunni að aðgerðum til að berjast gegn hamfarahlýnun.
Katrín mun funda með forsvarsmönnum norrænu verkalýðshreyfinganna á morgun og þar mun Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sitja fundinn fyrir hönd íslensku verkalýðshreyfingarinnar.