Lífið

Stony í lykilhlutverki í nýju lögfræðidrama NBC

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Stony leikur Emerson.
Stony leikur Emerson.
Þorsteinn Sindri Baldvinsson, betur þekktur sem Stony Blyden, landaði nýverið stóru hlutverki í nýjum lögfræðidamaþáttum bandarísku sjónvarpstöðvarinnar NBC sem fer brátt í sýningu. Þekktar sjónvarpsstjörnur leika við hlið Stony sem er í lykilhlutverki í fyrsta þætti hinnar nýju seríu.

Þættirnir nefnast Bluff City Law og skarta meðal annars Jimmy Smits og Jayne Atkinson. Smits er best þekktur fyrir leik sinn í þáttunum LA LA, West Wing og Dexter en Atkinson er líklega helst þekkt fyrir hlutverk hennar sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna í þáttunum House of Cards.

Stony leikur hlutverk Emerson, aðstoðarmanns lögfræðinga á lögfræðistofu í eigu persónu Smits og dóttur hans, sem leikin er af Gaitlin McGee.

Stony skaust upp á stjörnuhimininn þegar YouTube-myndband sem hann gerði náði miklum vinsældum. Varð það meðal annars til þess að Stony lék í auglýsingu fyrir Pepsi í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu, umkringdur helstu stjörnum knattspyrnuheimsins.

Lærði ensku á Friends

Í viðtali við New York Post segir Stony að hlutverkið sé fyrsta „fullorðins-hlutverkið“ hans en Stony lék meðal annars aðalhlutverkið í unglingaþáttunum Hunter Street á sjónvarpstöðinni Nickoleodon.

„Ég hef alltaf leikið einhvern sem er yngri en sautján ára. Fyrir þetta hlutverk gæti ég meira segja látið mér vaxa yfirvaraskegg, það er frábært,“ segir hann í viðtalinu við Post.

Þar fer hann yfir æskuárin á Íslandi þar sem hann segist meðal annars hafa lært ensku á því að horfa á sjónvarpsþættina vinsælu Friends. Hann er ánægður með að hafa landað hlutverkinu í Bluff City Law, enda sérhæfi lögfræðistofan sig sem þættirnir fjalla um í að koma fram fyrir hönd skjólstæðinga sem séu að berjast við stærri og valdameiri fyrirtæki og stofnanir.

Fyrsti þátturinn fjallar einmitt um hópmálsókn gegn efnafyrirtæki sem sakað er um að hafa ekki varað við krabbameinsvaldandi efni í vöru fyrirtækisins, sem gæti hafa leitt til krabbameins hjá fjölda starfsmanna fyrirtækisins.

Það er persóna Stony sem lætur ljós sitt skína í fyrsta þættinum og segir á vef Post að hann grafi upp lykilupplýsingar í málinu.

„Það að láta þá sem bera ábyrgð axla ábyrgðina var mikilvægt fyrir mér,“ segir Stony um af hverju hann hafi tekið að sér hlutverkið.

Fyrsti þátturinn verður sýndur í Bandaríkjunum næstkomandi mánudag en alls hefur NBC pantað sextán þætti.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.