„Við verðum með litla sjoppu og stærri veitingastað. Svo munum við selja olíuvörur eins og Olís gerði,“ segir Sveinn Arnar. „Fyrirkomulagið verður eins og á gamla Olís, fólk sækir mat í afgreiðsluna en við munum halda því sem gengið hefur vel í Skúrnum, eins og mat í hádeginu fyrir vinnumennina.“
Þeir eru ekki búnir að fá húsnæðið afhent og geta ekki gefið dagsetninguna þegar þeir opna, það verði þó í haust. „Við fáum afhent fljótlega,“ segir Sveinn. „Við erum tvær fjölskyldur sem erum að leggja allt undir, þannig að það má ekki mikið klikka.“
Olís þurfti að loka verslun og veitingastað bensínstöðvarinnar í mars síðastliðnum að kröfu Samkeppniseftirlitsins í kjölfar sameiningar Olís og Haga í fyrra, en Hagar reka verslun Bónuss í bænum. Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, furðar sig enn á þeirri ákvörðun.

Athafnamaðurinn Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson opnaði verslunina Bensó eftir að Olís lokaði, þeirri verslun var lokað nú í vikunni.
Íbúi í Stykkishólmi sem Fréttablaðið ræddi við segir marga óánægða með að hafa enga sjoppu í bænum, ekki sé lengur hægt að fara á nammibar, fá ís í brauðformi og þegar Bónus sé lokað þurfi að keyra til Grundarfjarðar til að kaupa gos. „Það varð allt vitlaust hérna,“ segir Sveinn. „Það var óánægja þegar nammibarinn fór og svona.“
Jakob segir að hann sjái enn eftir verslun Olís, til dæmis þegar komi að því að nálgast gas. Hann horfir þó bjartsýnum augum á framtíðina. „Núna er það tímabundið ástand að það er engin sjoppa, svo eiga strákarnir eftir að sanna sig.“