Skoðun

Sorgar­mið­stöð skiptir máli

Ína Ólöf Sigurðardóttir, Helena Rós Sigmarsdóttir og K. Hulda Guðmundsdóttir og Anna Lísa Björnsdóttir skrifa
Sorgarmiðstöð, sem sinnir fræðslu og ráðgjöf til syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð þeirra, verður opnuð í kvöld.  Fjögur grasrótarfélög á sviði sorgarúrvinnslu standa að Sorgarmiðstöð; Birta landssamtök, Gleym mér ei, Ljónshjarta og Ný dögun og stuðningur í sorg.

Unnið úr sorginni með aðstoð

Sorgarúrvinnsla eflir og styður við andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks eftir ástvinamissi.  Enginn veit hvenær sorgin hellist yfir, eða hvernig ferli sorgarinnar er. Stundum höfum við óraunhæfar hugmyndir um sorgina og bregðumst jafnvel við á óviðeigandi hátt. Fólk getur virst ónærgætið, en í raun heldur það oft að sorgin sé svo persónuleg að það eigi ekki að ræða hana. Sumum finnst erfitt að vera í návist syrgjanda og eftir jarðarför er hinn látni jafnvel ekki nefndur á nafn af því fólk óttast að segja eitthvað óviðeigandi. 

 

Það getur verið mjög gagnlegt að ræða við einhvern sem hefur sjálfur gengið í gegnum sorg og veit að hún snýst um að lifa með missinum, en ekki að loka á tilfinningar. Rannsóknir hafa sýnt að góð úrræði í sorg geta fækkað geðheilbrigðisvandamálum og hjálpað til að flýta félagslegri endurhæfingu syrgjenda. Þannig getur úrvinnsla úr sorg haft forvarnargildi, vegna sjúkdóma og félagslegs vanda.

Opnun Sorgarmiðstöðvar verður kl. 20:00 í Lífsgæðasetri sem áður var St. Jósefsspítali í Hafnarfirði. Þar verða flutt stutt ávörp og fræðsluerindi fyrir syrgjendur. Þið eruð öll velkomin.

Höfundar eru stofnendur Sorgarmiðstöðvar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×