Bíó og sjónvarp

Gagnrýnandi BBC um nýju Terminator-myndina: „Vinsamlegast hættið að framleiða þessar myndir“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Linda Hamilton sem Sarah Connor í nýjustu Terminator-myndinni.
Linda Hamilton sem Sarah Connor í nýjustu Terminator-myndinni.
Nicholas Barber, gagnrýnandi BBC, virðist ekkert vera alltof sáttur við nýjustu myndina í Terminator-kvikmyndaröðinni, Terminator:Dark Fate. Hann gefur myndinni þó þrjár stjörnur en biður framleiðendur hennar um að vinsamlegast hætta við að framleiða fleiri Terminator-myndir, það sé tilgangslaust.

Í Terminator: Dark Fate leiða Arnold Schwarzenegger og Linda Hamilton aftur hesta sína saman, í fyrsta sinn síðan í Terminator 2:Judgement Day, sem var framhald fyrstu Terminator-myndarinnar. Báðar þessar myndir þóttu vel heppnaðar.

Það sama er ef til vill ekki hægt að segja um framhaldsmyndirnar þrjár sem gerðar hafa verið eftir að Terminator 2 kom út. Schwarzenegger lék í tveimur þeirra, síðast í Terminator Genisys sem kom út árið 2015. 

Forsíða greinarinnar.Skjáskot/BBC.
Í gagnrýni Barber segir að framhaldsmyndirnar þrjár hafi fjarlægst það sem gerði fyrstu tvær myndirnar svo vel heppnaðar, og því batt hann vonir við að með endurkomu Hamilton og James Cameron sem framleiðanda, leikstjóra fyrstu tveggja myndanna, myndi eitthvað af töfraljómanum snúa aftur.

Segir hann að biðin hafi verið þess virði, það hafi verið magnað að sjá Hamilton aftur í hlutverki Söruh Connor og að hún og Schwarzenegger smelli vel saman. Þá takist leikstjóra myndarinnar meðal annars að endurvekja eitthvað af því sem gerði fyrstu tvær myndirnar svo góðar. Líklega ástæðan fyrir stjörnunum tveimur.

Barber telur þó að myndin sé í raun tilgangslaus. Ekkert nýtt komi fram í henni og að eina markmið hennar sé að vera moðsuða úr fyrstu tveimur myndunum. Framleiðendurnar valið að búa til verri endurgerð, frekar en að reyna að skapa eitthvað nýtt.

„Útkoman er ekkert slæm, en ef það er það eina sem þeir geta boðið upp á, til hvers eru þeir þá að þessu. Það þarf að tortíma þessari myndaröð.“

Gagnrýni Barber má lesa hér.


Tengdar fréttir

Nýr Terminator í Los Angeles

Arnold Schwarzenegger er hinn eini og sanni Terminator en til að auglýsa nýja framhaldsmynd í Terminator-flokknum þá leiddu framleiðendur myndarinnar Arnold og körfuboltamanninn Kawhi Leonard saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.