Íslandsheimsóknir hans teljast því jafnan til tíðinda, ekki síst þegar hann er með nýja skáldsögu í farteskinu, þannig að eðlilega var fjölmenni í útgáfuhófi hans í Ásmundarsal í gær þegar hann fylgdi sinni nýjustu bók, Innflytjandanum, úr hlaði.
Ólafur Jóhann er vanur lofi og verðlaunum og hlaut einróma lof fyrir síðustu bók sína, Sakramentið, sem kom út 2017 og ef marka má forleggjara hans er fyrirsjáanlegt að hann endurtaki leikinn með Innflytjandanum þar sem hann „sýnir allar sínar bestu hliðar og í stórbrotinni sögu sem kemur á óvart“.
Atburðarás Innflytjandans hefst þegar innflytjandi finnst látinn úti í Örfirisey á dimmum og köldum febrúardegi. Um sömu helgi verða landsmenn helteknir af hvarfi ungrar, íslenskrar stúlku sem gufar sporlaust upp í myrkrinu, snjónum og ófærðinni.






