Lögregla í Malmö fékk tilkynningu um sprengingu skömmu fyrir klukkan 21 að staðartíma í kvöld. Sex mínútum síðar bárust fréttir um að tveir hafi verið skotnir á veitingastað við Möllevångstorgið.
Talsmaður lögreglu segir í samtali við sænska fjölmiðla að ólíkar frásagnir hafi borist um fjölda sprenginga.
Í sænskum fjölmiðlum segir að tveir hafi fundist á veitingastað og er talið að þeir séu með skotsár. Hafa þeir verið fluttir á sjúkrahús og er annar þeirra sagður alverlega særður.
Margir urðu vitni af árásinni en fjölda veitingastaða er að finna á Möllevångstorginu.
Mikið hefur verið um sprengingar í Malmö og Stokkhólmi síðustu mánuði. Er talið fullvíst að þær tengist átökum glæpagengja í borginni.
Tilkynnt um sprengingu og skotárás í Malmö
Atli Ísleifsson skrifar
