Talsmenn albanskra yfirvalda segja að fjörutíu manns hið minnsta hafi látið lífið í skjálftanum sem varð í landinu á þriðjudag. Ekki liggur fyrir um hve margir séu enn grafnir í rústum þeirra húsa sem eyðilögðust í skjálftanum.
„Tíu fórnarlömb til viðbótar fundust í nótt, sem þýðir að tala látinna er nú komin í fjörutíu,“ segir í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti landsins.
Skjálftinn mældist 6,4 að stærð og olli meðal annars eyðileggingu í strandbænum Durres og þorpinu Thumane.
Á þriðja hundrað erlendra sérfræðinga taka þátt í björgunarstarfinu, þar með talið Sólveig Þorvaldsdóttir byggingaverkfræðingur.
Skjálfti þriðjudagsins er sá öflugasti í álfunni á þessu ári og fannst hann víða á Balkanskaga og Ítalíu.
Nokkur hundruð eftirskjálftar hafa mælst, þar af tveir af stærðinni 5,0.

