Borgarleikhúsið heldur áfram að bjóða landsmönnum heima í stofu upp á skemmtun á tímum samkomubanns.
Í kvöld klukkan 20 er komið að verðlaunasýningunni Jesús litli. Sýningin var frumsýnd 20. nóvember 2009 og tekin upp fimm leikár í röð vegna vinsælda.
„Við erum stödd í Palestínu á því herrans ári núll. Rómverjar hafa sölsað undir sig landið og Heródes er settur landsstjóri. Þegar spyrst út að frelsari muni fæðast í landinu kemur tilskipun frá honum um að myrða skuli öll sveinbörn, tveggja ára og yngri. Ljótt er það. Hver fæðir eiginlega barn inn í slíkt ástand?“ sagði á sínum tíma í lýsingu sýningarinnar.
Jesús litli var valin sýning ársins á Grímuverðlaununum 2010 auk þess sem að Bergur Þór, Halldóra, Kristjana, Benedikt Erlingsson leikstjóri og Snorri Freyr Hilmarsson, leikmynda- og búningahöfundur, voru valin leikskáld ársins.
Einnig verður streymt frá spjalli Halldóru Geirharðsdóttur, Kristjönu Stefánsdóttur og Bergs Þórs Ingólfssonar, um sýninguna.