Hávaðakvörtunum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 4. maí til og með 10. júní hefur fækkað lítillega, samanborið við sama tímabil á síðasta ári. Kvörtunum vegna hávaða innandyra hefur fjölgað talsvert, en á móti hefur þeim fækkað vegna hávaða utandyra.
Þetta kemur fram í svari lögreglu við fyrirspurn fréttastofu. Þar segir að árið 2019 hafi kvartanir vegna hávaða innandyra verið 172 á umræddu tímabili árið 2019. Í ár hafi kvartanirnar hins vegar verið 217.

Aðra sögu er að segja af kvörtunum vegna hávaða utandyra. Frá 4. maí til 10. júní 2019 voru slíkar kvartanir 145 talsins. Á sama tímabili, ári síðar, voru þær 89.
Hávaðakvörtunum á tímabilinu fækkaði þannig um 11 á milli ára, en í fyrra voru þær 317, en 306 í ár.