„Ísland er nú eins og kórónuveiran hafi aldrei borist þangað.“ Svo hljóðar fyrirsögnin á langri og ítarlegri umfjöllun fréttamanna CNN, sem dvöldu hér á landi í vikunni og tóku viðtöl við landsmenn um kórónuveirufaraldurinn.
„Barirnir og veitingastaðirnir eru fullir. Fólk er úti að njóta lífsins. Mögnuð jarðfræðileg undur eru galopin ferðamönnum. Það væri hægt að fyrirgefa hverjum þeim sem heimsækir Ísland núna fyrir að halda að hann sé kominn inn í hliðstæðan raunveruleika þar sem faraldur kórónuveiru varð aldrei,“ segir í fréttinni.
Fréttamenn CNN komu hingað til lands strax og ferðamönnum var hleypt inn í landið á mánudag án þess að þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við komu. CNN-hópurinn fór þannig í gegnum veiruskimun á landamærunum, sem einmitt er tekin til umfjöllunar í greininni.
„Þetta [skimunin] getur verið óþægileg reynsla. Hún er fólgin í því að vera skipað inn í bás þar sem tvær manneskjur, klæddar frá toppi til táar í hlífðarbúnað, nota löng plastprik til að pota mun dýpra en viðbúið var til að taka sýni.“
Þá er rætt við Kára Stefánsson forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar sem furðar sig á því að önnur lönd skuli ekki hafa tekið upp íslensku leiðina, þ.e. að skima skipulega og beita sóttkví líkt og Íslendingar hafa gert með góðum árangri.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir jafnframt í samtali við CNN að krafan um að opna landið á ný hafi verið hávær. „Þetta snýst ekki bara um efnahagslífið, þetta snýst líka um að við erum eyja og á þessum tímum, bara það að ganga að hefðbundnum samgöngum milli landa er nauðsynlegur þáttur,“ segir Katrín.
Umfjöllun CNN, bæði í riti og á myndbandi, má nálgast í heild hér.