Neyðarástandi hefur verið aflétt á Spáni og mun landið aftur opna fyrir ferðamönnum. Ferðamenn frá Evrópusambandinu og Bretlandi munu ekki þurfa að fara í sóttkví við komuna til landsins.
Landið hefur farið einna verst út úr kórónuveirufaraldrinum en 28.322 andlát eru tengd Covid-19. Aðeins tvö lönd í Evrópusambandinu eru með fleiri andlát; Frakkland og Ítalía.
Í þrjá mánuði hafa verið harðar aðgerðir í gildi til þess að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirufaraldursins og var neyðarástandi lýst yfir þann 14. mars síðastliðinn. Í nokkrar vikur var fólki ekki heimilt að fara út og hreyfa sig og börn máttu ekki fara út af heimili sínu.
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, ítrekaði mikilvægi einstaklingsbundinna smitvarna þrátt fyrir afléttingar og munu reglur um grímur og félagsforðun áfram gilda. Fólk þarf því að halda 1,5 metra fjarlægð og nota grímur á stöðum þar sem ekki er unnt að halda þeirri fjarlægð, til að mynda í verslunum.
„Við verðum að vera vakandi og fylgja reglum um hreinlæti og smitvarnir,“ sagði Sánchez og bætti við að það væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir aðra bylgju.
Hiti komufarþega verður mældur á flugvellinum og munu þeir þurfa að gefa upp hvort þeir hafi áður greinst með veiruna. Þá munu allir þurfa að gefa upp símanúmer eða aðrar upplýsingar svo hægt sé að hafa samband við þá.
Um 80 milljónir ferðamanna heimsækja Spán árlega að því er fram kemur á vef BBC og eru tekjur vegna ferðaþjónustu um tólf prósent af vergri landsframleiðslu landsins.