Bíll frá dráttarbílafyrirtækinu Vöku þurfti að sækja annað bíl frá dráttarbílafyrirtækinu Vöku í gær, en sá var að sækja bíl sem var ekki á vegum dráttarbílafyrirtækisins Vöku. Fyrir vikið myndaðist þriggja bíla turn í port JL-hússins í Vesturbæ Reykjavíkur, eins og myndin hér að ofan ber með sér.
Valdimar Haraldsson, deildarstjóri hjá akstursdeild Vöku, segir í samtali við vef Morgunblaðisins að loftpúði hafi sprungið í minni Vökubílnum. Hann hafi verið „bremsulaus og allslaus“ eins og hann kemst að orði. Þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þessi staða kemur upp hjá Vöku að sögn Valdimars sem bætir við að sambærileg atvik þekkist jafnframt meðal keppinautanna.
Helga Lind Mar segir í samtali við Vísi að móðir hennar hafi tekið umrædda mynd, sem vakið hefur mikla athygli á samfélagsmiðlum. Helga Lind deildi mynd móður sinnar af bílasamlokunni sem hún segir hafa myndast síðdegis í gær í Vesturbænum sem fyrr segir.
Í dag var bíll frá Vöku að sækja bilaðan bíl. Síðan bilaði bíllinn frá Vöku svo að annar bíll frá Vöku kom að sækja bílinn frá Vöku og bilaða bílinn. pic.twitter.com/gj8IK3Z5uB
— Helga Lind Mar (@helgalindmar) July 14, 2020